Viðskipti innlent

Þróa líf­plast­húð úr úr­gangi sem er ætlað að minnka plast­notkun

Eiður Þór Árnason skrifar
Julie Encausse, framkvæmdastjóri Marea og Orri Björnsson, forstjóri Algalífs.
Julie Encausse, framkvæmdastjóri Marea og Orri Björnsson, forstjóri Algalífs. Aðsend

Líftæknifyrirtækið Algalíf hefur skrifað undir samning við sprotafyrirtækið Marea ehf. um þróun á lífplasthúð (e. food coating) úr þörungahrati. Um er að ræða næfurþunna lífniðurbrjótanlega húð um matvæli sem vonast er til að muni bæði minnka plastnotkun og draga úr matarsóun með því að auka geymsluþol matvæla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Algalíf en fyrirtækið framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr örþörungum. Nýting þörungahratsins er sögð geta orðið mikilvægt skref til aukinnar sjálfbærni á Íslandi og innlegg í verðmætaskapandi hringrásarhagkerfi framtíðarinnar. 

Þróun lífplastshúðarinnar kemur til viðbótar núverandi þróun Marea á lífplastfilmum úr þara sem hafa verið í þróun undanfarin ár.

Sækja í sig veðrið

Marea hefur meðal annars hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði og hvatningarverðlaun sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021. Þá er fyrirtækið keppandi í úrslitum í alþjóðlegu TOM FORD Plastic Innovation Prize.

Svona lítur þörungahratið út sem til stendur að vinna úr.Aðsend

Að sögn Algalíf er fyrirtækið það stærsta á sviði örþörungaframleiðslu á Íslandi og eitt af þeim stærstu í Evrópu. Um 50 manns starfa nú hjá fyrirtækinu og er ársveltan rúmur 1,5 milljarður króna en unnið er að því að þrefalda framleiðsluna.

Framleiðsla Algalíf fer fram innanhúss í 5.500 fermetra húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ. Að sögn stjórnenda eru bundin um 75 tonn af koltvísýringi við framleiðsluna og um 60 tonn af súrefni losuð út í andrúmsloftið.

Fjallað var um fyrirhugaða stækkun á framleiðslu Algalíf í fréttum Stöðvar 2 í fyrra. 


Tengdar fréttir

100 ný störf á Suðurnesjunum hjá Algalíf

Líftæknifyrirtækið Algalíf á Ásbrú í Reykjanesbæ ætlar að þrefalda framleiðslu sína á fæðubótarefninu Astaxanthíni með því að stækka verksmiðju fyrirtækisins um rúmlega helming. Ársveltan fyrirtækisins mun fjórfaldast eftir stækkun og fara úr einum og hálfum milljarði króna í um fimm og hálfan milljarð króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×