Handbolti

Teitur skoraði sex í öruggum sigri | Fjórða tapið í röð hjá Bjarka og félögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson var atkvæðamikill í liði Flensburg í kvöld.
Teitur Örn Einarsson var atkvæðamikill í liði Flensburg í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og Bjarki Már Elísson voru í eldlínunni með liðum sínum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Teitur skoraði sex mörk í öruggum sigri Flensburg gegn Hamburg, 33-23, en Bjarki Már og félagar í Lemgo hafa nú tapað fjórum deildarleikjum í röð eftir sex marka tap gegn Erlangen, 33-27.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik er Flensburg tók á móti Hamburg og þegar flautað var til hálfleiks höfðu heimamenn í Flensburg eins marks forystu í stöðunni 15-14.

Teitur og félagar tóku þó öll völd í síðari hálfleik og lönduðu að lokum öruggum tíu marka sigri, 33-23.

Eins og áður segir skoraði Teitur sex mörk fyrir Flensburg sem nú situr í fjórða sæti deildarinnar með 42 stig eftir 27 leiki.

Þrátt fyrir fínana fyrri hálfleik máttu Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo þola sex marka tap gegn Erlangen. Lemgo hafði þriggja marka forystu þegar gengið var til búningsherbergja, en liðið skoraði aðeins níu mörk í síðari hálfleik gegn 18 mörkum gestanna.

Bjarki og félagar þurftu því að sætta sig við sex marka tap, 33-27, en þetta var fjórða tap liðsins í röð í deildinni.

Bjarki skoraði átta mörk fyrir Lemgo, en liðið situr í tíunda sæti deildarinnar með 24 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.