Viðskipti innlent

Sagði skilið við fjár­mála­heiminn til að gerast vín­bóndi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Ís­­lenskur doktor í stærð­­fræði á­kvað að segja skilið við fjár­­mála­heiminn, láta drauminn rætast og gerast vín­bóndi í Sviss. Hann er nú á landinu að kynna vín sitt fyrir Ís­­lendingum og býður öllum sem vilja að koma að smakka.

Þeir eru ekki margir ís­lensku vín­bændurnir - hvað þá ís­lensku vín­bændurnir sem eru með doktors­próf í stærð­fræði.

En hér er einn slíkur: Höskuldur Ari Hauks­son sem á­kvað að segja skilið við fjár­mála­heiminn úti í Sviss og helga líf sitt vín­bú­skap.

Höskuldur hélt vínsmakk fyrir alla sem vildu á Hilton Nordica milli 14 og 19 í dag. Það verður aftur á sama tíma á morgun. Við litum við í vínsmakkið í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag - hægt er að sjá hvernig var þar í myndbandinu hér að ofan. vísir/arnar

„Þetta er nú bara hobbí sem að varð allt of stórt allt í einu. Ég byrjaði að kaupa eitt tonn af pi­not noir þrúgum - fór með það ofan í þvotta­hús og bjó til vín heima. Gerði það í tvö, þrjú ár og þriðja árið tók ég við fyrstu ekrunni minni. Á fjórða árinu þá gerðist ég svo bara bóndi,“ segir Höskuldur Ari.

Það var fyrir fimm árum sem Höskuldur keypti vín­ekru í sveitar­fé­laginu Rüfenach í Sviss. Þar er lífið líkast draumi - alla­vega á myndum...

Vínekrur Höskuldar í Rüfenach eru óneitanlega fallegar.aðsend

„Ég held það hafi nú margir kannski verið með þann draum, sér­stak­lega þegar menn eru saman komnir á flösku númer tvö og farið að dreyma um það hvað það væri nú yndis­legt að vera með eigin vín­ekru... og svona þetta ljúfa líf, la dolce vita. En stað­reyndin er sú að þetta er bara hörku­mikið púl. En það er rosa skemmti­legt,“ segir Höskuldur Ari.

Notar dvergkindur víkinga við víngerðina

Hann er til dæmis ný­búinn að fá sér kindur til að hjálpa sér að halda grasinu á vín­ekrunum niðri. En það eru engar venju­legar kindur sem Höskuldur er með.

„Þetta eru dverg­kindur. Þetta er minnsta kinda­kyn í heiminum. En það er svo á­huga­vert við það að það voru upp­haf­lega víkingarnir sem komu með þessar kindur til eyjunnar Ou­essant [í Bretaníu­skaga]. Nú segi ég svona í gríni að víkingarnir séu búnir að taka þær til baka,“ segir Höskuldur Ari.

Það er því einhver Íslandstenging í víngerð Höskuldar í Sviss. Hann nefnir einnig mörg vína sinna íslenskum nöfnum; til dæmis Sólskin, Horn, Rauð, Hvít, Tunglskin og nýjasta vín hans - freyðivín sem nefnist Perlur.

Dverkkindurnar koma upprunalega frá víkingum.aðsend

Höskuldi hefur gengið vel að selja vínið og er nú að flytja það til sex landa, meðal annars Ís­lands en það hefur verið hægt að fá nokkrar tegundir af víni hans í ríkinu síðustu árin.

Hann hélt smakk á vínum sínum í dag á Hótel Hilton Nor­di­ca og verður þar aftur á morgun milli klukkan tvö og sjö. Því geta allir sem vilja komið og smakkað.

„Hver sem er sem er á lög­aldri hann er hjartan­lega vel­kominn að koma og smakka,“ segir Höskuldur Ari.

Höskuldur með einni af dvergkindum sinum. Eins og sést á myndinni eru þær ansi smávaxnar.aðsend




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×