Viðskipti innlent

Guð­rún Hulda nýr rit­stjóri Bænda­blaðsins

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Hulda Pálsdóttir.
Guðrún Hulda Pálsdóttir. Aðsend

Guðrún Hulda Pálsdóttir hefur verið ráðin nýr ritstjóri Bændablaðsins. Hún tekur við stöðunni af Herði Kristjánssyni í júní næstkomandi. 

Í tilkynningu frá Bændasamtökunum segir að Guðrún Hulda sé öllum hnútum kunn á Bændablaðinu og hafi hún starfað þar síðastliðin sjö ár sem blaðamaður, auglýsingastjóri og umsjónarmaður Hlöðunnar.

Haft er eftir Guðrúnu Huldu að staða Bændablaðsins sé sterk því lesendur viti að þeir geti gengið að innihaldsríkri umfjöllun, óvæntri þekkingu og mikilvægum upplýsingum, auk þess sem blaðið sé vettvangur fyrir áhugaverð skoðanaskipti. 

„Ég mun halda áfram þeirri vegferð sem Hörður hefur, með þvílíkri natni og eljusemi, leitt undanfarin ár. Við erum lítill en samhentur hópur sem stöndum að blaðinu og munum áfram miðla upplýsandi fregnum af landbúnaði og fjölbreyttum málefnum honum tengdum á skýran og heiðarlegan hátt,“ segir Guðrún Hulda.

Guðrún Hulda hefur fimmtán ára reynslu í fjölmiðlum, en áður en hún kom til starfa á Bændablaðinu starfaði hún hjá tímaritinu Eiðfaxa sem ritstjóri og blaðamaður og þar áður hjá Morgunblaðinu. Hún er með BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og nam Umhverfis- og auðlindafræði á meistarastigi í sama skóla.

Bændablaðið er eitt útbreiddasta dagblað landsins sem kemur út í 32.000 eintökum á tveggja vikna fresti.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.