Klinkið

Kristján snýr aftur til Kviku banka

Ritstjórn Innherja skrifar
Kristján Einarsson og Máni Atlason.
Kristján Einarsson og Máni Atlason.

Mikið var um hrókeringar í bankakerfinu á síðustu dögum fyrir páska þegar að tveir lykilstjórnendur í Arion banka og Kviku sögðu upp störfum til að taka við stjórnartaumunum í SKEL fjárfestingafélagi.

Á meðal þeirra sem hætti í Arion fyrr í þessum mánuði tengt þeim breytingum var Kristján Einarsson, sem var forstöðumaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja á fjárfestinga- og fyrirtækjasviði, en hann hefur verið ráðinn yfir til Kviku banka. Kristján, sem þykir snjall og reynslumikill lánamaður, þekkir vel til til í Kviku en hann starfaði hjá bankanum og forverum hans um árabil áður en hann flutti sig yfir til Arion banka með Ásgeiri Helga Reykfjörð Gylfasyni, sem þá var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku, árið 2019 þegar hann var ráðinn aðstoðarbankastjóri auk þess að stýra fyrirtækja- og fjárfestingbankasviði Arion.

Ásgeir hefur sem kunnugt er verið ráðinn forstjóri SKEL en með honum kemur einnig Magnús Ingi Einarsson, sem var framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku, og mun gegna starfi fjármálastjóra fjárfestingafélagsins.

Þá hefur Máni Atlason, sem hefur verið framkvæmdastjóri GAMMA frá árinu 2019, einnig flutt sig um set innan samstæðu Kviku banka, sem er eigandi sjóðastýringarfyrirtækisins, og tók við í liðnum mánuði sem verkefnastjóri fyrirtækjalána hjá fjárfestingabankanum.

Máni var ráðinn framkvæmdastjóri GAMMA haustið 2019 þegar ráðist var í uppstokkun á stjórnendateymi félagsins vegna dræms reksturs fagfjárfestasjóðsins Novus, sjóðs í stýringu GAMMA og eigenda Upphafs fasteignafélags. Sjóðfélagar Novus töpuðu háum fjárhæðum þegar upplýst var um það haustið 2019 að eignir Upphafs voru stórlega ofmetnar og var virði félagsins lækkað úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir.

GAMMA skilaði hagnaði í fyrra upp á 221 milljón króna – í fyrsta sinn frá árinu 2017 – en starfsemi félagsins er núna smám saman að leggjast niður. Eignir í stýringu námu 27,5 milljörðum í árslok en flestir sjóðir fyrirtækisins hafa verið fluttir yfir til Kviku eignastýringar, verið slitið eða eru í slitameðferð.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×