Körfubolti

Hawks og Pelicans seinustu liðin inn í úrslitakeppnina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Trae Young fór fyrir liði sínu er Atlanta Hawks tryggði sér sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.
Trae Young fór fyrir liði sínu er Atlanta Hawks tryggði sér sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Todd Kirkland/Getty Images

Atlanta Hawks og New Orleans Pelicans urðu í nótt seinustu tvö liðin til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Atlanta Hawks heimsótti Cleveland Cavaliers í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitakeppni Austurdeildarinnar í nótt. Heimamenn í Cleveland reyndust sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 61-51.

Gestirnir mættu þó hungraðir til leiks í síðari hálfleik og unnu fljótt upp forskot Cleveland-liðsins. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan jöfn 84-84 og gestirnir í miklum gír. Þeir reyndust svo sterkari í lokaleikhlutanum og unnu að lokum góðan sex stiga sigur, 107-101.

Gestirnir geta helst þakkað góðu framlagi Trae Young fyrir sigurinn. Hann skoraði 38 stig í nótt, og þar af setti hann niður 32 í síðari hálfleik. Ásamt því tók hann þrjú fráköst og gaf níu stoðsendingar. 

Atlanta Hawks er því komið í úrslitakeppnina þar sem liðið mætir Miami Heat í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar.

Í úrslitaleik Vesturdeildarinnar um sæti í úrslitakeppninni mættust Los Angeles Clippers og New Orleans Pelicans. Gestirnir frá New Orleans höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn í Los Angeles Clippers voru þó ekki tilbúnir að gefast upp alveg strax og settu á svið sýningu í þriðja leikhluta. Liðið setti niður 38 stig gegn aðeins 18 stigum gestanna og heimamenn voru því allt í einu komnir með tíu stiga forskot þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Gestirnir létu þennan slæma kafla ekki slá sig út af laginu. Þeir snéru taflinu við á nýjan leik og unnu að lokum nauman fjögurra stiga sigur, 105-101.

Brandon Ingram dró vagninn fyrir Pelicans-liðið og skoraði 30 stig. Hann tók einnig sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Í liði Los Angeles Clippers voru það þeir Marcus Morris Sr. og Reggie Jackson sem voru atkvæðamestir með 27 stig hvor.

New Orelans Pelicans er því á leið í úrslitakeppnina, en liðið á ærið verkefni fyrir höndum þar sem besta lið deildarinnar, Phoenix Suns, verður andsætðingur þeirra.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×