Viðskipti innlent

Musk stefnt vegna tafa á tilkynningu um Twitter-kaup

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elon Musk er ríkasti maður heims.
Elon Musk er ríkasti maður heims. AP

Nokkrir fyrrverandi hluthafar í samfélagsmiðlinum Twitter hafa stefnt auðkýfingnum Elon Musk vegna tafa hans á að tilkynna um kaup hans á stórum hlut í fyrirtækinu.

Líkt og sagt var frá á dögunum keypti Musk nýverið 9,2 prósent hlut í Twitter. Komið hefur á daginn að Musk sendi inn tilskylda tilkynningu um að hann hafi eignast meira en fimm prósent í fyrirtækinu eftir að lögbundinn frestur rann út.

Samkvæmt tilkynningunni sem Musk sendi þegar greint var frá 9,2 prósent hlut hans í Twitter eignaðist Musk yfir fimm prósent hlut í samfélagsmiðlinum þann 14. mars síðastliðinn. Hann hefði því átt að senda tilkynninguna í síðasta lagi þann 24. mars.

Í millitíðinni hélt Musk áfram að kaupa hlutabréf í Twitter þar sem meðalverð á hverju hlutabréfi í kaupunum var um 39 dollarar. Það var ekki fyrr en Musk var kominn með 9,2 prósent eignarhlut að hann sendi tilkynningu þar sem kaupin voru opinberuð, þann 4. apríl síðastliðinn.

Við tilkynninguna tók hlutabréfaverð Twitter töluverðan kipp og fór á tímabili yfir fimmtíu dollara. Sérfræðingar hafa með það sem svo að Musk hafi hagnast um 156 milljónir dollara, um tuttugu milljarða króna, með því að tilkynna of seint um að hann hafi farið yfir fimm prósent eignarhlut, líkt og lög kveða á um.

Telja að Musk hafi haft af þeim fé

Þeir sem stefna Musk nú eru á meðal þeirra sem seldu hlutabréf í aðdraganda tilkynningu hans um kaupin á Twitter.

Telja þeir að með því að tilkynna of seint um kaupin á Twitter hafi Musk getað keypt fleiri hlutabréf á lægra verði en ella. Með því hafi hann haft fjármuni af þeim sem stefna honum nú.

Hópurinn vill að lögsóknin fá hópmálsóknarstöðu og að Musk greiði ótilgreindar bætur og miskabætur vegna málsins.

Það er fyrrverandi hluthafinn Marc Rosella sem leiðir málsóknina. Sjálfur seldi hann 35 hluti í Twtter á tímabilinu 25. mars til 29. mars fyrir að meðaltali 39,23 dollara á hlut. Sem fyrr segir bar Musk að tilkynna um að hann hafi náð fimm prósent eignarhlut í Twitter þann 24. mars, degi áður en Rosella hóf að selja sín bréf.


Tengdar fréttir

Musk tekur ekki sæti í stjórn Twitter

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk hefur ákveðið að taka ekki sæti í stjórn samfélagsmiðlarisans Twitter. Parag Agrawal, framkvæmdastjóri Twitter, greindi frá þessu í dag, en Elon Musk varð á dögunum stærsti einstaki hluthafinn í Twitter eftir að hafa keypt 9,2 prósenta hlut.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.