Körfubolti

Fékk 40 milljónir króna á 8 sekúndum

Atli Arason skrifar
Jrue Holiday fékk væna bónusgreiðslu í dag.
Jrue Holiday fékk væna bónusgreiðslu í dag. Getty Images

Jrue Holiday, leikmaður Bucks, er 306 þúsund dollurum ríkari í dag en í gær en það jafngildir tæplega 40 milljónum króna. Holiday er með bónus ákvæði í samningi sínum við Bucks sem varð virkt eftir að hann spilaði í átta sekúndur gegn Cleveland Cavaliers í nótt.

Milwaukee Bucks var öruggt með a.m.k. þriðja sæti austurdeildar NBA fyrir lokaumferðina sem var leikin í nótt. Bucks gat því leyft sér að hvíla alla sína helstu leikmenn fyrir átökin í úrslitakeppninni. Það kom því einhverjum á óvart að sjá Holiday í byrjunarliði Bucks í leiknum gegn Cavaliers.

Eftir uppkastið í upphafi leiks fór boltinn til Darius Garland, leikmanns Cavaliers. Holiday tók sig þá til og braut á Garland og strax í kjölfarið fór hann af leikvelli og kom ekki aftur inn á það sem eftir lifði leiks. Alls 8 sekúndur sem Holiday spilaði en hann var þá að spila sinn 67. leik á tímabilinu. Holiday er með ákvæði í samningi sínum sem tryggir honum bónus greiðslu upp á 306 þúsund dollara eftir 67. leikinn.

Þjálfari Bucks, Mike Budenholzer, gat því bæði tryggt að Holiday fengi mikilvæga hvíld fyrir úrslitakeppnina ásamt því að hann fengi þessa tæplega 40 milljón króna bónusgreiðslu. Holiday mætir því sennilega með stórt bros á vör í fyrsta leik í úrslitakeppninni þegar Bucks fær Chicago Bulls í heimsókn næsta sunnudag.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×