Viðskipti innlent

Akureyrarbær skilaði óvæntum 752 milljóna afgangi

Eiður Þór Árnason skrifar
Allir flokkar starfa saman í bæjarstjórn á Akureyri.
Allir flokkar starfa saman í bæjarstjórn á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Rekstur Akureyrarbæjar gekk mun betur á síðasta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir og var samstæða bæjarins rekin með 752 milljóna króna afgangi. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1.184 milljarða króna tapi.

Rekstrarniðurstaða samstæðu bæjarins fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 2.460 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 482 milljóna króna rekstrarafgangi. Að sögn bæjarstjórnar eru meginskýringar á bættri afkomu hærri skatttekjur af útsvari og minni aukning lífeyrisskuldbindinga en gert var ráð fyrir.

Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 voru lagðir fram í bæjarráði í dag. Niðurstaða rekstrar A-hluta, sem inniheldur ekki fjárhagslega sjálfstæð dótturfyrirtæki bæjarins, var jákvæð um 318 milljónir en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.447 milljónir króna.

Sjóðsstreymi batnaði milli ára og nam veltufé frá rekstri samstæðu 3.906 milljónum króna sem var 1.736 milljónum hærra en áætlað var. Árið 2020 var upphæðin 2.312 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri samstæðunnar nam 2.748 milljónum í fyrra.

Stöðugildum fækkaði

Fjöldi stöðugilda hjá bænum var að meðaltali 1.495 á síðasta ári sem er fækkun um 136 frá árinu áður. Fækkun starfsmanna á milli ára er sögð skýrast af því að Akureyrarbær hætti rekstri öldrunarheimilanna vorið 2021.

„Fjárhagur Akureyrarbæjar er traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 86% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 85% árið áður. Skuldaviðmið í A-hluta var 61% í árslok en var 62% árið áður,” segir í tilkynningu frá bænum.

Auknar langtímaskuldir

Afborgun langtímalána nam 1.145 milljónum króna en ný langtímalán samstæðunnar voru 2.000 milljónir. Hækkun á handbæru fé á árinu nam 703 milljónum og var handbært fé samstæðunnar í árslok 3.215 milljónir króna.

Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 36.137 milljónum króna en þar af voru skammtímaskuldir 4.935 milljónum króna.

Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru 921 þúsund krónur á hvern íbúa en tekjur voru samtals 1.448 þúsund krónur á hvern íbúa. Árið 2020 voru skatttekjurnar 876 þúsund krónur á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.437 þúsund.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.