Innherji

Óverðtryggð íbúðalán lífeyrissjóðanna stóraukast, ekki verið meiri frá 2019

Hörður Ægisson skrifar
Eftir vaxtahækkanir Seðlabankans síðustu mánuði bjóða lífeyrissjóðirnir í dag í flestum tilfellum betri kjör á breytilegum óverðtryggðum íbúðalánum en bankarnir.
Eftir vaxtahækkanir Seðlabankans síðustu mánuði bjóða lífeyrissjóðirnir í dag í flestum tilfellum betri kjör á breytilegum óverðtryggðum íbúðalánum en bankarnir. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Heimilin eru á ný farin að sækjast í auknum mæli eftir því að taka óverðtryggð íbúðalán hjá lífeyrissjóðunum samhliða því að þau eru að greiða upp slík lán á breytilegum kjörum hjá bönkunum eftir brattar vaxtahækkanir Seðlabankans á undanförnum mánuðum. Lífeyrissjóðirnir bjóða þannig í dag í flestum tilfellum betri kjör á breytilegum óverðtryggðum íbúðalánum en bankarnir.

Í febrúar á þessu ári námu ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, samtals tæplega sex milljörðum króna og jukust þau um meira en tvöfalt á milli mánaða. Er þetta mesta útlánaaukningin í óverðtryggðum íbúðalánum sjóðanna í einum mánuði frá því í október á árinu 2019.

Þetta sýna nýjar tölur Seðlabankans um eignir lífeyrissjóðanna, sem birtust í morgun, en á sama tíma og heimilin horfa núna til óverðtryggðra lána þá héldu þau áfram að greiða upp verðtryggð íbúðalán hjá lífeyrissjóðunum. Námu uppgreiðslur slíkra lána, sem hafa verið samfelldar frá því um mitt árið 2020, tæplega 2,6 milljörðum króna í febrúar síðastliðnum. Frá því í júní 2020 hafa heimilin greitt upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðunum fyrir samanlagt um 95 milljarða króna.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku að hann hefði áhyggjur af því að hækkandi vextir og nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar geti valdið því að heimilin færi sig aftur yfir í verðtryggð lán, á sama tíma og Seðlabankinn væri í raun að hafa hemil á þeim, og að lífeyrissjóðir verði á ný atkvæðamiklir á lánamarkaði. Bætti hann við að lífeyrissjóðirnir hefði yfirburði í því að fjármagna verðtryggð lán sökum þess að skuldir þeirra væru verðtryggðar á móti.

Fram kom í máli hans að það væri „engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag.“

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, brást við þessum ummælum Ásgeirs í samtali við Innherja í gær og sagði að það væru „ákveðin vonbrigði“ að seðlabankastjóri tæki undir þann málflutning forsvarsmanna bankanna sem getur leitt til þess að þátttakendum á samkeppnismarkaði fækki verulega.

Eftir samfelldar uppgreiðslur frá því um vorið 2020 fram til október í fyrra hafa hrein ný lán lífeyrissjóðanna til heimila aukist – sem er alfarið drifið áfram af sókn í óverðtryggð lán – núna fjóra mánuði í röð fyrir samtals um 8,5 milljarða króna. Til samanburðar voru sjóðsfélagalánin greidd upp fyrir samtals 67 milljarða á öllu árinu 2021.

Þessi breyting kemur til á sama tíma og verulega hefur dregið úr ásókn heimilanna í óverðtryggð lán hjá bönkunum samhliða því að vaxtakjör þeirra hafa farið versnandi undanfarna mánuði eftir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans – úr 0,7 prósentum í 2,75 prósent – en tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,7 prósent.

Útlánatölur bankanna sýna að heimilin greiddu upp óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum fyrir meira en 1.230 milljónir króna í febrúar. Það hefur ekki gerst frá því í árslok 2016 að uppgreiðslur á slíkum íbúðalánum séu meiri en sem nemur nýjum lánveitingum innan eins mánaðar. Á sama tíma hafa þau í vaxandi mælið verið að taka slík lán á föstum vöxtum. Í febrúar námu lán bankanna með veði í íbúð samtals tæplega 13 milljörðum króna.

Skýringarnar að baki þessari þróun eru einfaldar. Bankarnir bjóða ekki lengur bestu kjörin á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum, lánaform sem heimilin sóttu nánast alfarið í á árunum 2020 og 2021, en sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, eins og meðal annars Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, eru í dag með talsvert lægri vexti á slíkum sjóðsfélagalánum en til dæmis Landsbankinn og Arion banka.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok mars 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir. Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.

Þegar mest var í ársbyrjun 2020 voru sjóðsfélagalánin um 540 milljarðar króna, eða tæplega ellefu prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna á þeim tíma, en nú eru lánin aðeins um 7,7 prósent af öllum eignum þeirra en þær hafa vaxið hratt á síðustu misserum og standa nú í 6.480 milljörðum króna.

Samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans lækkuðu eignir lífeyrissjóðanna um tæplega 71 milljarð króna í febrúarmánuði. Þar munaði mest lækkun á virði erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina um 63,4 milljarða króna en talsverðar verðlækkanir voru á hlutabréfamörkuðum, bæði erlendis og hér heima, í febrúar vegna stríðsátakanna í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Bankarnir ekki lánað meira til fyrirtækja í þrjú ár

Verulega er farið að hægja á íbúðalánavexti bankanna um þessar mundir en ný lán þeirra með veði í fasteign námu rúmlega 9,6 milljörðum króna í febrúar og hafa þau ekki aukist minna á einum mánuði frá því í ársbyrjun 2020 áður en faraldurinn hófst. Á sama hafa ný útlán bankanna til atvinnulífsins hins vegar ekki aukist meira í nærri þrjú ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×