Viðskipti innlent

Anna Kristín nýr formaður SÍA

Eiður Þór Árnason skrifar
Anna Kristín Kristjánsdóttir og Guðmundur Hrafn Pálsson, fráfarandi formaður.
Anna Kristín Kristjánsdóttir og Guðmundur Hrafn Pálsson, fráfarandi formaður. Aðsend

Anna Kristín Kristjánsdóttir var kjörin formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa (SÍA) á aðalfundi samtakanna sem fram fór í gær. Fráfarandi formaður er Guðmundur Hrafn Pálsson frá Pipar/TWBA.

Sömuleiðis voru Sigríður Theódóra Pétursdóttir frá Brandenburg og Kristján Hjálmarsson frá Hér & nú kjörin í stjórn SÍA. Selma Rut Þorsteinsdóttir frá Pipar/TWBA var kosin varamaður. 

Fram kemur í tilkynningu frá SÍA að Anna Kristín sé starfandi stjórnarformaður auglýsingastofunnar Hvíta hússins og varaformaður í stjórn Félags atvinnurekenda (FA). Anna Kristín hefur setið í stjórn SÍA undanfarið ár og í stjórn FA síðastliðin fimm ár.

Anna Kristín er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur verið meðeigandi á Hvíta húsinu frá árinu 2015 og stjórnarformaður síðan 2017. Þar áður starfaði hún hjá Vodafone í tíu ár, sem forstöðumaður einstaklingssölu og forstöðumaður markaðsmála.

Sex auglýsingastofur eiga aðild að SÍA; Brandenburg, Ennemm, Hér & nú, Hvíta húsið, Aton JL og Pipar/TBWA. SÍA er samstarfsfélag Félags atvinnurekenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×