Innherji

Bóksal selur í skráðum félögum til að minnka áhættu og skuldsetningu

Hörður Ægisson skrifar
Untitled design (9)
Samsett mynd

Fjárfestingafélagið Bóksal, sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur og hefur verið afar umsvifamikið á hlutabréfamarkaði undanfarin misseri, seldi í liðnum mánuði hluta bréfa sinna í Icelandair, Arion banka og Kviku banka þar sem það hefur um nokkurt skeið verið á meðal stærstu hluthafa.

Bogi, sem ásamt eiginkonu sinni er meðal annars eigandi heildverslunarinnar Johan Rönning, segir við Innherja að vegna óvissunnar sem skapaðist á mörkuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi þau selt „lítinn hluta eigna félagsins til að minnka áhættu og hlutfallslega skuldsetningu.“

Aðspurður segir Bogi að aldrei hafi komið til veðkalla frá fjármálstofnunum vegna framvirkra samninga félagsins í kjölfar þeirra snörpu verðlækkana sem urðu á hlutabréfamörkuðum í febrúar og byrjun marsmánaðar.

Fjárfestingarfélag Boga og Lindu átti í lok síðasta mánaðar á bilinu um 1,3 prósent til 2 prósent í félögunum þremur – hlutfallslega mest í Kviku – sem skilaði þeim á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa og var markaðsvirði bréfanna sem voru skráð í nafni Bóksal samanlagt vel yfir sjö milljarða króna á þeim tíma. Þar munaði mest um eignarhlutinn í Arion banka, sem Bóksal byrjaði að byggja upp á fyrri hluta síðasta árs, sem var tæplega 3,8 milljarða króna virði.

Í dag er Bóksal hins vegar ekki lengur á hluthafalistum Icelandair, Arion og Kviku yfir umsvifamestu eigendur félaganna og má því ætla að það hafi minnkað eignarhluta sína nokkuð á síðustu vikum.

Aðdragandi og eftirmálar innrásar Rússa í Úkraínu, sem hófst aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar, hefur litað mjög þróun hlutabréfaverð á þessu ári. Lágpunktur ársins var 8. mars þegar Úrvalsvísitalan hafði lækkað um 16 prósent frá áramótum en síðan þá hafa lækkanirnar gengið til baka að hluta til og er vísitalan núna um 7,3 prósentum lægri en við upphaf ársins.

Hlutabréfaverð Icelandair og Kvika banka lækkaði einna mest allra félaga í Kauphöllinni þegar óróinn á mörkuðum var hvað mestur. Þannig féll gengi bréfa Icelandair um liðlega þriðjung frá miðjum febrúar fram til 8. mars á meðan hlutabréfaverð Kviku lækkaði á sama tíma um meira en 20 prósent.

Bogi Þór Siguroddsson, annar eigenda Bóksals.

Bogi segir að stefna Bóksals sé að vera „óháður fjárfestir til skamms- og millilangs tíma“ og eins sé það stefna þess að vera undir lögbundnum mörkum um upplýsingaskyldu um stærð hlutar í hverju félagi.

„Sökum þessarar stefnu teljum við óheppilegt að nafn félagsins sé á listum yfir stærstu hluthafa, þar sem margs konar ástæður geta verið fyrir því að eignarhlutur Bóksals stækki eða minnki,“ útskýrir Bogi. Vegna þessarar stefnu þá hafi verið tekin sú ákvörðun, í kjölfar óróa á mörkuðum vegna stríðsátakanna í Úkraínu, að færa eignir Bóksals á vörslureikning hjá viðskiptabönkum félagsins.

Að sögn Boga er staða Bóksals sterk eftir að gripið var til þessara aðgerða. „Félagið tók myndarlega þátt í útboði Bankasýslunnar á Íslandsbanka um daginn þó hlutfall þess sem félagið fékk að kaupa væri lágt í samanburði við tilboðið sem það gerði,“ bætir hann við.

Fjárfestingar félagsins gengu afar vel árin 2020 og 2021 en sökum óvissunar vegna stríðsins þá seldum við lítinn hluta eigna félagsins til að minnka áhættu og hlutfallslega skuldsetningu félagsins.

Bóksal var stofnað í júní 2020 þegar þau Bogi og Linda, sem eru einnig eigendur eignarhaldsfélagsins Sindranda, ákváðu að flytja bréf félagsins í Kviku – sem var um þriggja prósenta hlutur í bankanum – yfir í sérstakt dótturfélag sem fjárfesta skyldi áhættumeiri fjármálaafurðum, meðal annars í framvirkum samningum á hlutabréfamarkaði.

Fyrsta stóra fjárfesting Bóksals var í Icelandair við endurskipulagningu og hlutafjárútboð flugfélagsins í september 2020 þegar það keypti tæplega eins prósenta hlut og varð síðar einn stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópnum með yfir tveggja prósenta hlut.

„Frá þeim tíma hefur félagið fjárfest í allmörgum félögum á íslenska hlutabréfamarkaðinum og þannig ratað inn á topp 20 hluthafalista nokkurra félaga,“ segir Bogi, en auk Icelandair, Arion banka og Kviku var Bóksal einnig um stund á meðal stærstu hluthafa fasteignafélagsins Reita á síðasta ári.

Á árinu 2020 nam samanlagður hagnaður félaganna AKSO og Sindrandra, móðurfélag Bóksals, rúmlega 1.900 milljónum króna en ekki liggja fyrir ársreikningar síðasta árs. AKSO á og rekur heild- og smásöluverslunina Fagkaup, móðurfélag Johan Rönning, og námu tekjur samstæðunnar um 14,5 milljörðum árið 2020.

Þá eru þau hjónin einnig á meðal stærstu hluthaf Ölgerðarinnar, sem hyggjur á skráningu á markað á síðari hluta maímánaðar, í gegnum félagið Sindranda með um 14 prósenta hlut.

Í árslok 2020 námu eignir Bóksals ríflega þremur milljörðum króna. Skuldir við lánastofnanir voru tæplega 2,1 milljarður króna á þeim tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×