Innherji

Sögðu Al­þingi að huga að fyrstu kaup­endum frekar en í­búðar­eig­endum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri sátu fyrir svörum á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. 
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri sátu fyrir svörum á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.  Samsett mynd

Stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa áhyggjur af því að skortur á fasteignum og miklar hækkanir fasteignaverðs geri það að verkum að ómögulegt verði fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn. Að þeirra mati eiga aðgerðir stjórnvalda frekar að beinast að fyrstu kaupendum heldur en þeim sem hafa nú þegar keypt sér fasteign.

Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Gunnars Jakobssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Fasteignamarkaðurinn var efst á baugi en samkvæmt nýjustu tölum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22,5 prósent á síðustu 12 mánuðum. Nefndarmenn spurðu stjórnendur bankans ítrekað um áhrif hækkandi vaxta á fólk sem keypti fasteign þegar vextir voru í sögulegu lágmarki.

Ásgeir sagði hins vegar viðbúið að ákveðnir hópar kæmust jafnvel ekki inn á fasteignamarkaðinn á næstu misserum.

Ef Alþingi ætlar að hafa afskipti af fasteignamarkaðinum er mikilvægt að ekki sé farið í bein afskipti af þeim sem eru á markaðinum nú þegar.

„Þegar litið er fram hef ég áhyggjur af því að það sé í raun orðið ómögulegt fyrir ungt fólk að kaupa fasteignir. Bæði vegna þess að það er ekki mikið framboð af litlum eignum og miðað við hvernig verðið hefur hækkað,“ sagði Ásgeir.

„Ef Alþingi ætlar að hafa afskipti af fasteignamarkaðinum er mikilvægt að ekki sé farið í bein afskipti af þeim sem eru á markaðinum nú þegar. Ég tel að staða þeirra sé þokkaleg, jafnvel þótt við hækkum vexti. Fókusinn á að vera á þá sem eru ekki á markaðinum en langar að komast inn,“ sagði Ásgeir.

Gunnar tók í sama streng. „Ég held að það sé sá hópur sem er að verða af allri þessari eignamyndun sem er að eiga sér stað núna. Það er miklu frekar ástæða til að hafa áhyggjur af þeim hópi heldur en þeim sem eru búnir að kaupa sér fasteign og hafa tekið lán á vöxtum sem eru lágir í íslensku samhengi.“

Í nýjustu skýrslu fjármálastöðugleikanefndar kom fram að vanskilatölur bæru ekki merki um vaxandi greiðsluvanda hjá heimilum. Vanskilahlutföll útlána banka til heimila var 0,9 próesnt í lok árs 2021 og hafði lækkað um 1 prósentu frá því að heimsfaraldurinn hófst. Hlutfallið er mjög lágt bæði í sögulegu samhengi og einnig í alþjóðlegum samanburði, en það var að meðaltali 2,5 prósent í Evrópu í lok 3. ársfjórðungs 2021.

Seðlabankinn hefur reynt að milda áhrif hertra aðgerða á fyrstu kaupendur. Fjármálastöðugleikanefnd bankans ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á miklar hækkanir fasteignaverðs. Nefndin tók þannig ákvörðun á fundi sínum í júní um að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra en fyrstu kaupendur úr 85 prósentum niður í 80 prósent.

Að auki kynnti nefndin nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við ráðstöfunartekjur neytenda sem tóku gildi 1. desember. Er hámarkið 35 prósent fyrir almennar lánveitingar og 40 prósent fyrir kaupendur fyrstu fasteignar.

„En það er í sjálfu sér engin lausn að fólk sé að taka á sig of mikla skuldsetningu til að komast inna á markaðinn. Við höfum varað við því,“ sagði Ásgeir.

Efasemdir eru um hvort hertar kröfur Seðlabanka Íslands um veðsetningu og greiðslubyrði lántaka muni hafa afgerandi áhrif á þróun fasteignaverðs. Í umfjöllun Innherja frá því í síðustu viku kom fram í máli viðmælenda að heimilin gætu hæglega breytt lánaformi úr óverðtryggðu í verðtryggt til að minnka greiðslubyrðina og þannig dregið úr tilætlaðri virkni aðgerðanna.

Framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Mikluborgar sagði að hertar kröfur hefðu lítil áhrif á markaðinn á meðan það eru fáar eignir í boði. „Þegar 20 manns slást um sömu íbúðina þá skiptir minna máli þótt nokkrir uppfylli ekki kröfurnar. Framboð er stærsta vandamálið."


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri segir að samfellt kaupmáttarskeið sé mögulega komið á enda

Það er „engin ástæða til að örvænta yfir þessari þróun,“ að sögn Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann er spurður út í hækkandi verðbólguvæntingar fjárfesta á skuldabréfamarkaði en þær hafa rokið upp á síðustu vikum, til fimm ára mælast þær núna um 5,5 prósent, og hafa ekki verið hærri frá því eftir fjármálahrunið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×