Innherji

Aðfangaverð flækist fyrir uppbyggingu húsnæðis, stálvirki upp um 65 prósent

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hækkandi aðfangaverð getur haft þau áhrif að forsendubrestur verði í útboðsverkum og gera þurfi bótakröfur.
Hækkandi aðfangaverð getur haft þau áhrif að forsendubrestur verði í útboðsverkum og gera þurfi bótakröfur. VÍSIR/VILHELM

Miklar hækkanir á aðfangaverði munu hækka byggingarkostnað almennt, þar með talið á íbúðahúsnæði, og líklega leiða af sér tafir í uppbyggingu. Jafnframt gætu þær fælt verktaka frá þátttöku í útboðum. Þetta segir Þorvaldur H. Gissurarson, eigandi og forstjóri ÞG Verks.

„Þetta ástand hefur auðvitað töluverð áhrif,“ segir Þorvaldur en ÞG Verk fékk nýlega tilkynningu um 65 prósenta verðhækkun á stálvirki í nokkuð stóru og nýlegu útboðsverki. Þurfti verktakafyrirtækið að falla frá fyrra tilboði og boða samsvarandi hækkun í nýju tilboði.

„Margir birgjar hafa boðað hækkanir og mögulega tafir á afhendingu, sem er afleitt ef verktakar eru búnir að binda sig í tilboðum og útboðsverkum. Þetta getur haft þau áhrif að forsendubrestur verði í útboðsverkum og gera þurfi bótakröfur. Sömuleiðis gæti þetta ástand fælt aðila frá þátttöku í útboðum,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur H. Gissurarson, eigandi og forstjóri ÞG Verks.ÞG Verk

„Þetta mun hækka byggingarkostnað almennt, þar með talið á íbúðarhúsnæði, og líklega leiða af sér tafir og seinkanir á afhendingu verkefna.“

Ekkert lát er á áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði og samkvæmt nýjustu tölum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22,5 prósent síðasta árið.

Í umfjöllun Innherja fyrr í þessari viku sagði Óskar Rúnar Harðarson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Mikluborgar, að hann reiknaði með því að fasteignaverð myndi róast eftir því sem liði á árið. Aftur á móti yrði næsta ár krefjandi í ljósi þess að þá byrja umtalsverðar kostnaðarhækkanir að birtast í verði nýbygginga.

„Allir sem byrjuðu að byggja fyrir 12 til 24 mánuðum síðan voru að gera það á lágum vöxtum og sluppu við mestu hækkanir á aðföngum. Síðan þá hafa aðföng og lóðaverð rokið upp í verði, vextir hafa hækkað og fram undan eru kjaraviðræður. Þegar kemur að nýbyggingum held ég að við munum horfa á allt önnur verð á miðju næsta ári,“ sagði Óskar.

Þá var haft eftir Þórarni V. Þórarinssyni, stjórnarformanni Reita fasteignafélags, að ámælisvert væri að ekki væri settur meiri kraftur í afgreiðslu skipulagstillagna svo að hægt væri að bregðast við verulegri vöntun á íbúðarhúsnæði. Afar lítið hefur þokast í skipulagi Kringlusvæðisins, sem Reitir hyggjast byggja upp, frá því að rammaskipulag um svæðið var samþykkt árið 2018.

„Á meðan bíða 1100 íbúðir óbyggðar á besta stað í borginni. Þetta er auðvitað ekki í lagi og við hljótum að vænta þess að borgaryfirvöld sinni skyldum sínum í þessu efni og láti vel mótaða tillögu um uppbyggingu Kringlusvæðisins, þar sem Kringlan sjálf verður í miðju nýs borgarkjarna, fá verðskuldaðan framgang án frekari tafa.“

Bæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir grundvallarbreytingum á meðferð skipulagsmála og einföldun á regluverki svo að hægt verði að svala íbúðaþörf markaðarins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×