Viðskipti innlent

Festi kaup á einni dýrustu íbúð sem selst hefur á Ís­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Níu lúxusíbúðir eru enn til sölu við Austurhöfn. 
Níu lúxusíbúðir eru enn til sölu við Austurhöfn.  Miklaborg

Félagið Dreisam ehf., sem er í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis, hefur keypt 353,7 fermetra þakíbúð við Austurhöfn nærri Hörpu. Um er að ræða stærstu lúxusíbúðina við Austurhöfn og fullyrt að þetta sé dýrasta íbúð sem seld hefur verið á Íslandi. Gengið var frá kaupunum fyrr í þessum mánuði.

Þetta herma heimildir fréttastofu en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá sölunni. Innangengt er í íbúðina á sjöttu hæð beint úr lyftu. Hún er seld fokheld en miðað er við að hún sé sex herbergja. Fram kom í frétt Morgunblaðsins í fyrra að uppsett verð væri hálfur milljarður króna. Miðað við það er fermetraverðið um 1,4 milljónir króna.

Um er að ræða horníbúð með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn, tveimur svölum og tveimur bílastæðum.

„Gluggar til þriggja átta fylla íbúðina mjúkri, náttúrulegri birtu. Stórar svalir bjóða upp á óviðjafnanlegt útsýni yfir hafið og lifandi höfnina og aðrar horfa yfir garðinn," sagði í kynningarefni frá Austurhöfn.

Greint var frá því í nóvember í fyrra að næststærsta lúxusíbúðin við Austurhöfn hafi verið seld til K&F ehf. en félagið er í eigu hjónanna Kesara Margrét Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði og Friðriks Ragnars Jónssonar, verkfræðings og forstjóra.

Ísland í dag leit við í einni lúxusíbúð við Austurhöfn á síðasta ári. Ekkert var til sparað þegar kom að því að innrétta íbúðina.


Tengdar fréttir

Keyptu eina dýrustu lúxusíbúð í Reykjavík

Búið er að selja 337 fermetra lúxusþakíbúð við Austurhöfn við hlið Hörpu. Félagið K&F ehf. keypti eignina en félagið er í eigu hjónanna Kesara Margrét Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði og Friðriks Ragnars Jónssonar, verkfræðings og forstjóra.

Innlit í lúxusíbúðirnar við Austurhöfn

„Þetta umrædda hús er fjölbýlishús sem samanstendur af sjötíu íbúðum og þar af eru fjórar penthouse íbúðir sem er svolítið stórar og tilbúnar til innréttingar.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×