Umræðan

Það er hægt að eiga varasjóð þótt heimilið skuldi húsnæðislán

Gunnar Ingi Halldórsson skrifar

Fyrir nokkru skrifaði ég grein um handbært fé fyrirtækja og hættuna sem felst í því að keyra á núllinu á tékkheftinu til að spara smá vexti og láta næstu efnahagslegu hamfarir grípa sig í bólinu.

Að þessu sinni verður einblínt á heimilið, á Íslandi. Hafísa landinu, landi veltiára og krepputíma sem endurtaka sig í sífellu og koma alltaf jafn mikið á óvart. Mér líka, og hef ég viðskiptafræðingurinn, unnið við fjár- og áhættustýringu í 16 ár. Lestur og iðkun á fornri-grískri fræði um stóíska heimspeki og ró hefur hjálpað mér síðustu misserin, en Bjartur í Sumarhúsum létti mér lund í fjármálahruninu. Hann lenti í því sama. Eftir jarðskjálfta, eldgos og farsóttir bjóst ég við loftsteini 2022 – en það kom stríð og orkukreppa.

Raunveruleikinn er sá að skuldlaus heimili eru jafn sjaldgæf og skuldlaus fyrirtæki. Það eru bara einhyrningar eða erfðaprinsar og -prinsessur, ekki ég eða þú. Þannig þarf að eiga varasjóð þótt það séu skuldir á efnahagsreikningi heimilisins. Hér mun ég færa rök fyrir því að fjölskyldan þurfi að eiga 5 til 6 mánaða útborguð laun á reikningi sem er aðgengilegur innan 3 til 6 mánaða. Þetta gera margir því innlán heimila í bankakerfinu hafa aukist jafnt og þétt á síðustu árum og nema nú um 1.000 milljörðum króna svo að mörg heimili eiga varasjóð en eflaust er innistæðum misskipt. Fjárhæðin nálgast 3 milljónir króna á hvert mannsbarn í landinu. Hugsið smá stund um það.

Það er mikilvægt að láta ekki næstu kreppu fara með ró sálarinnar. Að geta haldið sálarró og einbeitingu þótt annar aðilinn á heimilinu missi vinnuna í næstu kreppu er nokkuð sem flestir þurfa að huga að.

Það sem er til umfram varasjóðinn – fari inn á húsnæðislánið

Fjallað var um sjóðspotta og lágmörkun skulda í fyrrnefndri grein. Fjölskyldan getur rekið sig með svona sjóðspotti eins og fyrirtæki því hægt er að borga það sem nurlað er saman aukalega umfram varasjóðinn inn á höfuðstól lána hjá flestum bönkum og lífeyrissjóðum. Það er góð hugmynd að vinna að því að lækka þannig smám saman húsnæðislánið til viðbótar. Best að borga inn á lánið stuttu eftir síðasta gjalddaga.

Sálarró er hornsteinn geðheilsunnar

Það er mikilvægt að láta ekki næstu kreppu fara með ró sálarinnar. Að geta haldið sálarró og einbeitingu þótt annar aðilinn á heimilinu missi vinnuna í næstu kreppu er nokkuð sem flestir þurfa að huga að. Það er svo enn mikilvægara þar sem bara einn sér um tekjuöflun heimilisins. Varasjóðurinn er trygging, og tryggingar kosta peninga.

Atvinnumissir er engum til gleði og að fara í bankann og biðja um yfirdrátt eða endurfjármagna húsnæðislán er verra að gera þegar ekki er hægt að sýna fram á öruggar tekjur. Það má þó rjúka beint í það ef þarf, en líklega er það ekki efst í huga fólks við atvinnumissi eða heilsubrest. Bankar verða líka varfærnari í útlánum í krepputíð.

Reikna þarf með að atvinnuleit geti tekið 6 til 9 mánuði og ekki er gott að setja sig í þá stöðu að neyðast til að taka fyrstu vinnunni sem býðst eða vera kald-sveittur af afkomuáhyggjum i í atvinnuviðtölum.

Áhættunefnd skili stjórn heimilisins skýrslu reglulega

Betra er að vera undirbúin undir erfiða tíma þótt við vonum alltaf það besta, eins og áhættunefnd venjulegra fyrirtækja gerir (eða á að gera). Reikna þarf með að atvinnuleit geti tekið 6 til 9 mánuði og ekki er gott að setja sig í þá stöðu að neyðast til að taka fyrstu vinnunni sem býðst eða vera kald-sveittur af afkomuáhyggjum i í atvinnuviðtölum. Oft er einhver fyrirvari eða teikn á lofti um samdrátt og uppsagnir á vinnustaðnum, og mikilvægt að tilkynna áhættunefnd heimilisins slíkt tímanlega svo hægt sé að bregðast við. Flestir á atvinnumarkaði hafa einhvern uppsagnarfrest, venjulega þrjá mánuði. Margir þurfa að vinna hluta eða allan uppsagnarfrestinn um leið og sinna þarf atvinnuleit á sama tíma. Fyrstu mánuðirnir eru því oft tryggir með þeim hætti. Þegar uppsagnarfresti lýkur hefur atvinnuleitandi rétt á hærri atvinnuleysisbótum tímabundið og getur það nægt til að halda sjó í einhverja mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur. Stundum er hægt að draga úr rekstrarkostnaði heimilisins tímabundið á meðan. Heimili með börn eiga þó oft mjög erfitt með það.

Varasjóðurinn þarf að duga í nokkra mánuði

Þarna kemur varasjóðurinn sterkur inn, hann veitir sjálfstraust, öryggi og sálarró í atvinnuleitinni og bætir hana verulega. Varasjóðurinn þarf að vera um það bil sama upphæð og 5 til 6 mánaða útborguð laun og aðgengilegur eftir 3 til 6 mánuði og því tilvalið að hafa hann á reikningi sem bundinn er til sömu tímalengda, kannski helminginn til 3 mánaða og helminginn til 6 mánaða. Alls ekki snerta sjóðinn nema í neyð. Ekki ætti að geyma varasjóðinn í hlutabréfum eða áhættusömum fjárfestingum sem geta lækkað eða horfið í kreppunni.

Betra er að vera undirbúin undir erfiða tíma þótt við vonum alltaf það besta, eins og áhættunefnd venjulegra fyrirtækja gerir (eða á að gera).

Ef varasjóðurinn er til dæmis 2,5 milljónir og ber 2 prósent vexti á meðan húsnæðislánin bera 5 prósent vexti er árlegur kostnaður um 75 þúsund krónur á ári. Fyrir marga er það ásættanlegur kostnaður sem tryggir mikilvæga sálarró í nokkra mánuði og mögulega betri niðurstöðu í atvinnuleit. Að finna réttu vinnuna er afar mikils virði, það vitum við launþegar. Það er líka hægt að ímynda sér að auðveldara sé að segja upp leiðinlegu vinnunni sem þú vilt ekki vera í ef varasjóðurinn er til staðar.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það geta ekki allir nurlað saman í varasjóð og útgjöldin víða hærri en innkoman. En það skaðar ekki að pæla í þessu og reyna að stefna á það. „Bad stuff happens“, vertu undirbúin(n).

Höfundur er forréttindapési. Giftur þriggja barna faðir í Vesturbænum og launþegi með tvo bíla og eitt mótorhjól (sparneytið), húsnæðislán og kött sem hefur kostað hann stórfé. Vinnur við fjárstýringu og áhættustýringu hjá Isavia og tekur stundum aukavinnu um helgar á fjöllum.


Tengdar fréttir

Handbært fé fyrirtækja – of mikið og aldrei nóg?

Hvað eiga fyrirtæki að hafa mikið handbært fé og hvenær er það of mikið eða of lítið? Þetta getur verið grundvallarspurning í áhættustýringu fyrirtækja en nálgunin á þetta viðfangsefni er mjög mismunandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×