Umræðan

„Hvað verður um afgreiðslustúlkurnar?“

Arnar Sigurðsson skrifar

Þessari mikilvægu spurningu var varpað fram í dagblaðinu Vísi árið 1976 vegna frumvarps um að heimila frelsi í sölu á mjólk og mjólkurafurðum. Í greinargerð með frumvarpinu var útskýrt að margt hefði breyst frá því sem áður var þegar einokunarverslun var innleidd. Þó ótrúlegt megi virðast þegar um landbúnaðarafurðir er að ræða voru það helst neytendasjónarmið sem voru efst á baugi, eða eins og sagði í greinargerð: „Nú vilja flestir neytendur fá keyptar allar matvörur sínar, þar með talda mjólk og mjólkurvörur, á einum stað, í hinum svokölluðu sjálfsafgreiðslubúðum. Þar er mikið vöruúrval að öllum jafnaði og allt annað en áður var í nýlenduvöruverslununum sem svo voru kallaðar“.

Sömuleiðis voru af því áhyggjur að einokunarverslunin yrði fyrir tekjumissi en hún hafði þá áður útvíkkað starfsemi sína í meðal annars brauð, safa, sælgæti og gos „til að lækka rekstrarkostnað" eins og það hét. Minnihluti nefndarinnar benti réttilega á að ekkert hafði verið gert til að „tryggja atvinnuöryggi 160 til 170 kvenna sem starfa í mjólkurbúðum“ og „verulega hættu á að sum bæjarhverfi - einkum í gamla bænum - verði afskipt“. 

Ekki vantaði sérfræðiálitin hjá minnihlutanum. Í umsögn borgarlæknis sagði að hætt væri á að veruleg afturför ætti sér stað varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum“ (mjólk væri nefnilega ekki eins og hver önnur neysluvara). Það kann að hljóma ótrúlega en þegar best lét voru hér um 100 mjólkurbúðir starfræktar!

Ótrúlegt en satt þá kom engin tillaga frá Framsóknarflokknum um að hafa mjólkurbúðirnar opnar á sunnudögum í stað þess að veita „100 prósent frelsi“. Framsóknarmenn sjá að sjálfsögðu enga þversögn í því að kjósendur flokksins hafi ekki frelsi til að haga matarinnkaupum sínum með frjálsum hætti rétt eins og atkvæðum sínum.

Á þessu ári varð elsta einokunarverslun Evrópu, ÁTVR, hundrað ára. Vonum að sá afmælisdagur verði sá síðasti. Gleðilegan bjórdag!

Kostulegt er að rifja upp rök þeirra sem hæst töluðu gegn lögleiðingu bjórs hér á landi. Bjórinn var meðal annars ekki einkamál eiginmanna því bjórvömbin yrði líka vandamál eiginkvenna og unglingum yrði umsvifalaust drekkt í óreglu. Þjóðin stóð á barmi hengiflugs. Álit sérfræðinga skipti miklu máli þá sem nú og erfitt var að andmæla áliti landlæknis um að „vinnumenn og jafnvel börn gætu haft tilhneigingu til að misnota bjórinn“. Undir þessi sjónarmið tók verkalýðshreyfingin sem taldi að vinnuframlag myndi augljóslega skerðast.

Rekstur einokunarverslana fyrir áfengi er engu minni tímaskekkja en rekstur mjólkurbúða var á sínum tíma. Líklega fer það á spjöld sögunnar sem eitthvert merkasta afrek í sögu orwellískrar áróðurstækni að sannfæra heila þjóð um að söluaðili vímuefnis, sem rekur 52 verslanir og leggur sig fram um ,,góða þjónustu" og „cross sell/upsell", vinni jafnframt gegn eigin sölu.

Nýlega stefndi ÁTVR mér og mínum fyrirtækjum fyrir héraðsdóm þar sem hún telur að ávinningur neytenda jafngildi tjóni fyrir stofnunina.

Á þessu ári varð elsta einokunarverslun Evrópu, ÁTVR, hundrað ára. Vonum að sá afmælisdagur verði sá síðasti. Gleðilegan bjórdag!

Höfundur er eigandi Sante.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×