Innherji

Sala eigna og uppstokkun á rekstri hækkar verðmatsgengi Skeljungs um þriðjung

Hörður Ægisson skrifar
Skeljungur rekur meðal annars um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar.
Skeljungur rekur meðal annars um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar. Orkan

Sala eigna, meðal annars á rúmlega helmingshlut í færeyska olíufélaginu Magn, og mikil umbreyting á efnahag Skeljungs gerir það að verkum að nýtt verðmatsgengi Jakobsson Capital á félaginu er hækkað um 31 prósent frá fyrra mati og er nú 14,5 krónur á hlut. Það er samt um 7 prósentum lægra en núverandi markaðsgengi sem stóð í 15,5 krónum á hlut við lokun markaða í dag.

Í nýju verðmati Jakobsson Capital, sem Innherji hefur undir höndum, er tekið fram að töluverð óvissa sé enn til staðar, einkum er varðar framtíðarrekstur, en verið sé að umbreyta Skeljungi og til stendur að breyta nafni þess í SKEL Fjárfestingafélag.

„Ljóst er að mikið mun draga úr vægi eldsneytis en félagið er orðið nokkuð stórt á lyfsölumarkaði og rekur Skeljungur fimm apótek. Sömuleiðis er Löður stærst í bílaþvotti. Skeljungur er að tengjast sterkari böndum við skyndibitamenningu. Félagið á Gló en jafnframt mun Skeljungur bjóða upp á Brauð & Co, Joe & Juice og Bæjarins Bestu í lúgu,“ segir greinandi Jakobsson.

Töluverð umbreyting varð á efnahagi Skeljungs, sem rekur um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar, á síðasta ári. Í lok árs gekk Skeljungur frá sölu á hinu færeyska Magni til Sp/f Orkufélagsins fyrir 12,2 milljarða króna en skuldbatt sig jafnframt til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 5,9 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns.

Þá er Skeljungur kominn með þriðjungshlut í Wedo ehf., móðurfélagi Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is, eftir að hafa tekið þátt í hlutafjáraukningu félagsins í janúar.

Í verðmati Jakobsson er gert ráð fyrir að framlegð af eldsneytissölu vaxi um 13 prósent milli áranna 2021 og 2022 vegna aukins fjölda ferðamanna.

„Lyfsalinn og Lyfjaval og Löður urðu hluti af rekstri Skeljungs rétt undir blálok ársins. Framlegð annarra vara mun líklega aukast um nærri 1 milljarð vegna kaupa. Ljóst er einnig að lokun 10-11 í Leifstöð og færri ferðamenn höfðu neikvæð áhrif á verslunarrekstur Skeljungs sem rekur þægindaverslanir eins og 10-11 og Extra. Ferðamenn voru væntanlega stór hluti viðskiptamanna bæði vegna opnunartíma og staðsetningar.“

Þá telur greinandi Jakobsson að framlegð aukist um 32 prósent milli ára eða um tæplega 2,1 milljarð. „Það má rekja tæplega helminginn af aukningunni til fyrirtækjakaupa. Það er gert ráð fyrir að EBITDA verði 3.344 milljónir árið 2022 og rekstrarhagnaður (EBIT) 1.774 milljónir en Skeljungur seldi um 13 eignir til Kaldalóns og eru þær leigðar til baka.“

Í forsendum verðmats Jakobsson Capital er gengið út frá því að eldsneytissala dragist saman um 2 prósent að nafnvirði á spátímanum til ársins 2026, eða 13,5 prósent að raunvirði.

„Margir vilja þó hoppa á þann vagn að telja að eldsneytisölu bifreiða verði nær lokið árið 2030 eða eftir 8 ár. Í fjárfestakynningu [Skeljungs] er bent á að 4 prósent bílaflotans gangi nú fyrir rafmagni. Samtals er rúmlega 4,5 prósent bílaflotans sem gengur fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Við þetta bætist svo að tæplega 7,5 prósent bílaflotans eru tengitvinnbílar eða Hybrid sem þurfa eldsneyti þótt þeir séu sparneytnari. Ljóst er verulegrar fjárfestingar er þörf í innviðum til að 25 til 30 prósent geti verið á rafmagnsbílum en ekki aðeins „yfirstétt“ sem búa í einbýli, raðhúsi eða hafa aðgang að bílakjallara,“ segir í verðmatinu.

Rekstraráætlun Skeljungs gerir ráð fyrir að EBITDA ársins 2022 nemi 3.200 til 3.600 milljónum króna. Töluverð óvissa er um afkomuna og framhaldið, að sögn greinenda Jakobsson, en samkvæmt hans mati verður EBITDA þessa árs 3,3 milljarðar króna með því að bæta reikningum Löðurs, Lyfsalans, Lyfjaver og Dælunnar við innlendan rekstur Skeljungs að viðbættum forsendum um rekstrarbata vegna aukinnar komu ferðamanna.

Í verðmatinu er bent á að eigendur Skeljungs hafa gefið út að frekari fjárfestingar gætu verið í farvatninu. Ef hagnaður er núvirtur og gert ráð fyrir að sjóður upp á 8,8 milljarða sé greiddur strax út sem arður fæst verðmat á rekstrahluta félagsins sem er tæplega 17,9 milljarðar.

Fjárfestingarhluti rekstrar skiptist upp í Orkufélagið sem heldur utan um 48,3 prósent hlut í rekstri gamla Skeljungs í Færeyjum. Þá á Skeljungur að auki 20 prósenta hlut í Kaldalóni og 50 prósent í Reyr fasteignaþróun. Eru þessar eignir metnar á rúmlega 8,2 milljarða króna í verðmati Jakobsson.

Heildarvirði Skeljungs samkvæmt verðmatinu er því 28,1 milljarður króna og hækkar um 6,8 milljarða frá fyrra verðmati. Samkvæmt greinenda Jakobsson kemur helmingur þeirrar virðisaukningar vegna hagstæðra samninga við sölu á Orkufélaginu en 48,3 prósent hluti fékkst fyrir fjármögnun á 2,8 milljarða.

„Hinir liðirnir eru sala eigna sem er leigð til baka á raunkröfunni 6 prósent en veginn fjármagnskostnaður Skel fjárfestingarfélags er um 7 prósent að raunvirði en gert er ráð fyrir 2,5 prósent verðbólgu að meðaltali á spátíma. Þessu til viðbótar eru tekjur af nýjum einingum í rekstri sem þó er nokkur óvissa um,“ segir í verðmatinu.

Fjárfestingafélagið Strengur, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, er sem kunnugt er með rúmlega 50 prósenta hlut í Skeljungi eftir að hafa fjármagnað skuldsetta yfirtöku á félaginu í ársbyrjun 2021.

Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 9 prósent frá áramótum og stendur markaðsvirði Skeljungs í 30 milljörðum.


Tengdar fréttir

Skeljungur bætti við hlut sinn í móðurfélagi Heimkaupa

Skeljungur er kominn með þriðjungshlut í Wedo ehf., móðurfélagi Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is, eftir að hafa tekið þátt í hlutafjáraukningu félagsins í janúar. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Skeljungs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×