Viðskipti innlent

Nýr ­banki kominn með starfs­leyfi hjá Seðla­bankanum

Eiður Þór Árnason skrifar
Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðs­son, stofnendur Indó.
Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðs­son, stofnendur Indó. Aðsend

Seðlabanki Íslands veitti í dag áskorendabankanum indó leyfi til að starfa sem sparisjóður. Indó tryggði sér tæplega 600 milljóna króna fjármögnun síðastliðið haust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sprotafyrirtækinu sem stefnir á að veita öllum landsmönnum aðgang að þjónustu sinni eftir nokkra mánuði, þegar búið verður að samþætta tölvukerfi við kerfisinnviði Seðlabankans. Fram að því verður þeim sem hafa skráð sig á póstlista fyrirtækisins boðið að prufukeyra appið.

Til að byrja með hyggst indó eingöngu bjóða upp á debetkortareikning en með tímanum stendur til að bæta við vöruframboðið í samstarfi við þriðju aðila. Indó verður að öllu leyti rekinn á raf­rænu formi og mun ekki halda úti einu einasta úti­búi.

Telja indó eiga eftir að breyta íslenskum bankamarkaði til frambúðar

Vísir ræddi við stofnendurna Tryggva Björn Davíðs­son og Hauk Skúlason síðasta sumar sem telja indó eiga eftir að breyta ís­lenskum banka­markaði til frambúðar. Báðir hafa þeir mikla reynslu úr banka­geiranum; störfuðu lengi hjá Íslandsbanka og Tryggvi Björn einnig hjá bönkum í Bret­landi.

„Þetta er búið að vera með eindæmum skemmtilegt og gefandi ferðalag undanfarin 3 ár og ef horft er til baka var það í raun galin hugmynd að láta sér detta í hug að stofan nýjan banka frá grunni. Ég að rifna úr stolti yfir teyminu sem hefur unnið hörðum höndum að því að komast á þennan stað og ég bý við þau einstöku forréttindi að vinna með hópi fólks sem hvert um sig er í heimsklassa á sínu sviði, að öðrum kosti hefðum við aldrei komist þangað sem við erum komin í dag,“ segir Haukur, framkvæmdastjóri indó, í tilkynningu.

Svokallaðir fjártæknibankar og áskorendabankar hafa sótt í sig veðrið í Evrópu á seinustu árum og veitt rótgrónum bönkum mikla samkeppni. Kannast margir Íslendingar við netbanka á borð við Monzo, Revolut og N26 sem hafa nú þegar opnað dyr sínar fyrir íslenskum viðskiptavinum. 


Tengdar fréttir

Nýr banki fer í beina sam­­keppni við stóru við­­skipta­bankana

Nýr banki er við það að hefja starf­semi á Ís­landi og ætlar sér í beina sam­keppni við stóru banka landsins um við­skipta­vini. Hann verður að öllu leyti rekinn á raf­rænu formi, mun ekki halda úti einu einasta úti­búi en telur sig munu breyta ís­lenskum banka­markaði til fram­tíðar.

Revolut Bank opnar á Íslandi

Breska fjártæknifyrirtækið Revolut hefur opnað bankastarfsemi sína fyrir Íslendingum og starfar nú á Íslandi undir evrópsku bankaleyfi.

Áskorendabankar hin nýja tegund fjártæknibanka

Áskorendabankar eru ný tegund banka sem eru að skapa sér miklar vinsældir erlendis á stuttum tíma. Google og Apple á hraðleið inn í bankageirann og framtíðin er björt í fjártæknigeiranum segir Eva Björk Guðmundsdóttir, forstöðumaður Meniga og formaður Samtaka fjártæknifyrirtækja á Íslandi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.