Innherji

Framtakssjóðurinn Horn IV fjárfestir í S4S, metið á um fjóra milljarða

Hörður Ægisson skrifar
S4S á meðal annars skóverslunina Steinar Waage.
S4S á meðal annars skóverslunina Steinar Waage. vísir/ernir

Nýr sjóður í stýringu Landsbréfa, Horn IV, hefur gengið frá kaupum á 22 prósenta hlut í fata- og útivistarsamstæðunni S4S, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Ellingsen, Steinars Waage og AIR. Fyrirtækið velti meira en fjórum milljörðum króna á árinu 2020.

Samrunatilkynningu vegna kaupanna var skilað inn til Samkeppniseftirlitsins í lok síðasta mánaðar.

Í viðræðunum um kaup framtakssjóðsins í S4S, sem hófust um mitt síðasta ári, var gert ráð fyrir því að hann myndi greiða um einn milljarð króna fyrir eignarhlutinn, bæði í formi nýs hlutafjárframlags og eins með kaupum á hluta af bréfum núverandi hluthafa, samkvæmt heimildum Innherja. Virði S4S í viðskiptunum væri því samtals um liðlega fjórir milljarðar króna.

Fyrir söluna voru stærstu hluthafar S4S, hvor um sig með 40 prósenta hlut, Pétur Halldórsson, forstjóri félagsins, og Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar.

Deloitte var ráðgjafi S4S í söluferlinu en eigendur félagsins áforma einnig að stefna að skráningu á First North-markaðinn í Kauphöllinni. Slík skráning gæti þá orðið að veruleika á næsta ári.

Ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs en S4S hagnaðist um 250 milljónir króna á árinu 2020. Rekstrartekjur félagsins voru samtals 4,2 milljarðar og þá jókst hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) verulega og var tæplega 480 milljónir. Eigið fé var um 770 milljónir í árslok 2020.

Fyrirtækið rekur þrjár netverslanir – skor.is, ellingsen.is og air.is – og jukust tekjur S4S vegna netsölu um meira en 300 milljónir á árinu 2020 og voru samtals 525 milljónir. Búast má við því að sá vöxtur hafi haldist áfram á nýliðnu ári.

Framtakssjóðurinn Horn IV var stofnaður síðastliðið haust og er um 15 milljarðar króna að stærð. Flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins eru á meðal hluthafa í sjóðnum. Fyrr í vikunni tilkynnti sjóðurinn að hann hefði gengið frá kaupum á 35 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu GoPro.

Fréttin var uppfærð kl: 12:54.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.