Innherji

Slíta Horni II eftir að hafa náð 25 prósenta árlegri ávöxtun

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hermann Már Þórisson og Steinar Helgason
Hermann Már Þórisson og Steinar Helgason

Framtakssjóðurinn Horn II er kominn í slitaferli eftir að hafa skilað fjárfestum hátt í þreföldun á fjármagninu sem var innkallað á fjárfestingatíma Horns II en sjóðnum var komið á fót árið 2013.

„Við náðum frábærum árangri með Horni II. Þetta er sjóður sem við erum mjög stolt af og ég held að þetta sé sá framtakssjóður á Íslandi sem hefur skilað hvað hæstu ávöxtuninni,“ Hermann M. Þórisson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Landsbréfum.

Fjárfestar í Horni II voru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir en stærstir voru Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með um 18 prósenta hlut hvor.

Horn II var um 8,5 milljarða króna framtakssjóður en inkallað hlutafé nam um 6,8 milljörðum króna. Nú er búið að selja allar fjárfestingaeignir sjóðsins og hafa hluthafar sjóðsins fengið um 17 milljarða króna. Það samsvarar rúmlega 25 prósenta árlegri ávöxtun (IRR) hluthafa eftir að búið er að taka tillit til alls kostnaðar og þóknana.

Eftir því sem Innherji kemst næst er Horn II fyrsti íslenski framtakssjóðurinn sem er slitið eftir að hafa lokið hlutverki sínu. Hann er að er minnsta kosti sá fyrsti af framtakssjóðunum sem íslensk rekstrarfélög hafa komið á fót.

„Eftir fjármálahrunið var ljóst að það væru margar óskráðar eignir sem væru álitlegir fjárfestingakostir. Jafnframt hafði af fjöldinn allur af fjárfestingafélögum lagt niður starfsemi. Í þessu umhverfi spruttu upp framtakssjóðir eins og Horn II. Þetta er form á fjárfestingum sem er vel þekkt erlendis en ruddi sér ekki til rúms hér á landi fyrr en eftir hrun,“ segir Hermann.

Á líftíma sjóðsins fjárfesti Horn II í fjórum óskráðum félögum. Sjóðurinn keypti 60 prósenta hlut í Keahótelum, um 20 prósenta hlut í Bláa lóninu, 25 prósenta hlut í Fáfni Offshore og um 18 prósent í spænska samheitalyfjafyrirtækinu Invent Pharma. Öll félögin nema Fáfnir Offshore, sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla, skiluðu ríkulegri ávöxtun.

Steinar Helgason sjóðstjóri segir að góða ávöxtun megi meðal annars rekja til þess að eignir voru seldar á réttum tíma. Til að mynda voru Keahótel seld um mitt ár 2017, þegar ferðamannabylgjan var í miklum hæðum, og hluturinn í Bláa lóninu var seldur í nóvember 2018. Þá var sjóðurinn virkur fjárfestir í hverju félagi. 

„Við fórum aldrei inn í félög án þess að marka stefnu með meðfjárfestum okkar um hvað væri hægt að gera á næstu árum og við vorum alltaf með stjórnarsæti til að geta fylgt því eftir,“ segir Steinar.

Eins og venjan er hjá framtakssjóðum af þessu tagi fá Landsbréf árangurstengdar þóknanir sem greiðast við slit. Eftir 25 prósenta árlega ávöxtun á innkallað hlutafé munu Landsbréf fá um 2 milljarða króna í sinn hlut, að því er kemur fram í síðasta ársreikningi félagsins. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×