Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína í 2,75 prósent í morgun. Þeir eru þá komnir á sama stað og þeir voru rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á og verða enn að teljast lágir í sögulegu samhengi.
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í byrjun árs 2020 greip Seðlabankinn til vaxtalækkana og héldust vextir í sögulegu lágmarki langt fram á síðasta ár. Verðbólga hefur síðan aukist og Seðlabankinn brugðist við með vaxtahækkunum sem ekki sér fyrir endann á.

Vextir lækkuðu hratt frá febrúar 2020 fram í maí 2021 þegar Seðlabankinn hóf aftur að hækka meginvexti sína vegna aukinnar verðbólgu. Verðbólga mældist 5,7 prósent í síðasta mánuði og hefur ekki verið hærri í um áratug.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að vextir kunni að hækka enn frekar gefi verðbólgan ekki eftir.

„Við þurfum að sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér hvað það varðar. Ef þetta heldur áfram þurfum við að bregðast við. Það er alveg rétt.“ Verðbólgan sé aðallega drifin áfram af hækkun húsnæðisverðs og hækkun olíu- og hrávöruverðs í útlöndum. Vonir standi til að þessar hækkanir fari að ná hámarki sínu og ganga hægt til baka.
Seðlabankinn gerir þó ekki ráð fyrir að verðbólgan verði komin nálægt 2,5 prósenta markmiði bankans fyrr en í ársbyrjun 2025.
„Svo skiptir auðvitað miklu máli þegar kemur fram á næsta haust hvernig kjarasamningar koma út. Verðbólga eftir það ræðast algerlega af kjarasamningum,“ segir Ásgeir.
Með aðgerðum Seðlabankans hafi tekist að verja gengi krónunnar og aukinn kaupmátt heimilanna í faraldrinum. Nú þurfi heimilin hins vegar að draga úr neyslu sinni.
„Það var markmið okkar að hvetja áfram einkaneyslu á þeim tíma þegar hagkerfið lá niðri. Núna þurfum við að fara að takmarka einkaneyslu og hægja á heimilunum,“ segir seðlabankastjóri.
Laun hafi hækkað meira en verðbólga undanfarið ár. Hugmyndir um að bæta heimilunum hækkun vaxta með framlögum úr ríkissjóði dragi ekki úr verðbólgu.
„Það vinnur gegn okkur og vinnur gegn því sem við erum að gera. Sérstaklega í ljósi þess sem ég sagði áðan. Heimilin hafa aldrei staðið sterkara en einmitt núna. Hvað varðar laun og kaupmátt, hvað varðar eigiðfé. Við erum líka í uppsveiflu núna þar sem störfum er að fjölga. Þannig að það er ansi mikið að vinna með heimilunum þótt verðbólga sé aðeins að hækka,“ segir Ásgeir Jónsson.