Neytendur

Sektar sex verslanir í Eyjum vegna trassa­skaps við verð­merkingar

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmaður Neytendastofu heimsótti verslanir í Vestmannaeyjum með tveggja mánaða millibili, í september og aftur í nóvember síðastliðinn, og kannaði þar stöðu verðmerkinga.
Starfsmaður Neytendastofu heimsótti verslanir í Vestmannaeyjum með tveggja mánaða millibili, í september og aftur í nóvember síðastliðinn, og kannaði þar stöðu verðmerkinga. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur sektað sex verslanir í Vestmannaeyjum þar sem þær hafi ekki sinnt reglum um verðmerkingar. Verslanirnar sem um ræðir eru Flamingó, Heimaey, N1 Friðarhöfn, Póley, Salka og Tvisturinn og nema sektirnar ýmist 50 eða 100 þúsund krónur.

Á vef Neytendastofu segir að í verðmerkingareftirliti sé skoðað hvort söluvörur séu verðmerktar, hvar sem þær séu sýnilegar eða aðgengilegar neytendum. Einnig sé skoðað hvort að verðskrá yfir framboðna þjónustu sé sýnileg.

„Í verðmerkingareftirliti Neytendastofu gerðu starfsmenn stofnunarinnar athugasemdir við verðmerkingar í verslununum þar sem ástand verðmerkinga var ábótavant og hvatti stofnunin til úrbóta. Þegar starfsmenn Neytendastofu komu í annað sinn voru enn gerðar athugasemdir við verðmerkingar og því hefur stofnunin nú sektað fyrirtækin,“ segir í tilkynningunni, en heimsóknirnar áttu sér stað í september og nóvember á síðasta ári.

Sektirnar sem verslanirnar fengu voru:

  • Flamingó: 50 þúsund krónur
  • Heimaey: 50 þúsund krónur
  • N1 Friðarhöfn: 100 þúsund krónur
  • Póley: 50 þúsund krónur
  • Salka: 50 þúsund krónur
  • Tvisturinn: 100 þúsund krónur

Verslanirnar eiga að greiða sektina innan þriggja mánaða.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×