Innlent

Aflýsa öllu Evrópuflugi á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugferðum til Evrópu hefur verið aflýst og viðbúið er að ferðum frá Bandaríkjunum seinki.
Flugferðum til Evrópu hefur verið aflýst og viðbúið er að ferðum frá Bandaríkjunum seinki. Vísir/Vilhelm

Fyrirhuguðum flugferðum Icelandair til og frá Evrópu á morgun hefur verið aflýst, vegna yfirvofandi aftakaveðurs á stórum hluta landsins á morgun. Ferðaáætlanir um 1.300 farþega raskast vegna þessa.

Í samtali við fréttastofu segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að félagið hafi byrjað að hafa samband við farþega í gær og láta þá vita af stöðunni.

„Við buðum þeim að færa flugið sitt, og einhverjir hafa nýtt sér það. En núna erum við búin að aflýsa öllu flugi til Evrópu og til baka í fyrramálið,“ segir Ásdís.

Auk þess er fyrirséð að flug frá Bandaríkjunum muni koma seinna inn til landsins en áætlað var. Hversu mikið þeim ferðum mun seinka liggur þó ekki fyrir um sinn. Það ætti þó að koma í ljós snemma í fyrramálið.

Aðspurð hversu margir farþegar þurfa að þola seinkun eða niðurfellingu flugferða segir Ásdís að um 1.300 farþegar eigi bókað flug til og frá Evrópu með félaginu á morgun.

Senda fólki sjálfkrafa nýtt plan

Félagið vinnur nú að því að greiða úr flækjum farþega sem kunn að verða vegna veðurofsans á morgun.

„Við reynum bara að koma fólki á flug sem fyrst og það eru allir komnir með nýja flugáætlun sem við sendum sjálfkrafa til fólks,“ segir Ásdís.

Því ættu allir tilvonandi Evrópufarþegar félagsins á morgun að vera upplýstir um gang mála.

Ásdís segir að ef ný flugáætlun hentar fólki ekki, mæli Icelandair eindregið með því að farþegar setji sig í samband við félagið svo hægt sé að leysa málin. Það sé þó óþarfi nema ný áætlun hentar ekki.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×