Innherji

Beitti inngripum til að hægja á styrkingu krónunnar í annað sinn á árinu

Hörður Ægisson skrifar
Seðlabankastjóri hefur sagt að litið lengra fram í tímann sé „ekki ólíklegt“ að gengi krónunnar muni styrkjast, einkum þegar ferðaþjónustan kemur að fullum krafti til baka.
Seðlabankastjóri hefur sagt að litið lengra fram í tímann sé „ekki ólíklegt“ að gengi krónunnar muni styrkjast, einkum þegar ferðaþjónustan kemur að fullum krafti til baka. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Seðlabanki Íslands greip inn á gjaldeyrismarkaði í gær þegar hann keypti gjaldeyri til að vega á móti gengishækkun krónunnar en hún hafði þá styrkst um hátt í eitt prósent í viðskiptum dagsins þegar bankinn kippti henni til baka, samkvæmt heimildum Innherja.

Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem Seðlabankinn beitir gjaldeyrisinngripum á markaði til að hamla því að gengi krónunnar styrkist of mikið innan dags. Frá áramótum hefur gengið hækkað um nærri 2,5 prósent gagnvart evrunni.

Samkvæmt viðmælendum Innherja á gjaldeyrismarkaði keypti Seðlabankinn gjaldeyri í gær fyrir samtals 12 milljónir evra, jafnvirði um 1.700 milljónir íslenskra króna, til að vinna gegn gengisstyrkingunni en við lokun markaða stóð gengið gagnvart evru í 144 krónum og nam gengisstyrkingin liðlega 0,4 prósentum yfir daginn. Hefur gengi krónunnar ekki verið jafn sterkt gegn evrunni frá því í upphafi faraldursins snemma í marsmánuði 2020.

Gjaldeyrisinngrip Seðlabankans komu á sama degi og nýjar verðbólgutölur fyrir janúar sýndu – þvert á spár allra greinenda – að árstaktur hennar hefði hækkað úr 5,1 prósenti í 5,7 prósent en sterkara gengi krónunnar ætti að öðru óbreyttu að draga úr verðbólguþrýstingi. Meðalspá greinenda gerði ráð fyrir að vísitala neysluverðs myndi lækka um 0,15 til 0,2 prósent á milli mánaða í janúar, sem hefði þýtt að tólf mánaða verðbólgan færi niður í 5 prósent, en þess í stað hækkaði hún um 0,5 prósent.

Verðbólgan hefur ekki verið meiri frá því í apríl 2012 en mælingin fyrir janúar var mikið frávik í sögulegu samhengi og undirliggjandi verðbólguþrýstingur er umtalsverður. Hækkunin á ársgrundvelli er komin upp í nærri 5 prósent.

„Þetta ætti klárlega að valda Seðlabankanum miklum áhyggjum og er alls ekki lengur hægt að tala um að verðbólgan sé eingöngu drifin áfram af húsnæðismarkaðnum,“ sagði Birgir Haraldsson, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Akta sjóðum, í samtali við Innherja í gær. Hann telur ekki útilokað Seðlabankinn muni vegna þessa ákveða að hækka vexti um 1 prósentu – úr 2 prósent í 3 prósent – á næsta vaxtaákvörðunarfundi í febrúar.

Mjög hefur dregið úr inngripum bankans að undanförnu samhliða því að betra jafnvægi hefur náðst á gjaldeyrismarkaði. Fyrir utan kaup Seðlabankans á gjaldeyri í tvígang í janúar á þessu ári hafði hann þar áður ekki beitt inngripum á markaði í um þrjá mánuði. Á undanförnum tólf mánuðum hefur gengi krónunnar gagnvart evru styrkst um liðlega átta prósent eftir að hafa lækkað talsvert á árinu 2020.

Flestir greinendur eiga von á frekari gengisstyrkingu krónunnar á komandi misserum. Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birtist fyrr í vikunni, var því spáð að krónan yrði um 3,5 prósentum sterkari í árslok 2022 en hún var í byrjun ársins. Á tímabilinu til ársins 2024 gerir bankinn ráð fyrir að styrkingin muni nema 8 til 9 prósentum. Þar komi til vaxandi viðskiptaafgangur, vextir Seðlabankans séu á uppleið, erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari og verðbréfaeign erlendra fjárfesta lítil í sögulegu samhengi.

Þegar faraldurinn stóð hvað hæst beitti Seðlabankinn umfangsmiklum gjaldeyrisinngripum, einkum í því skyni að draga úr tímabundnum þrýstingi á gengi krónunnar, en á síðasta ári námu þau samtals að jafnvirði um 72 milljörðum króna. Þar munaði mest um sölu á gjaldeyri fyrir tæplega 50 milljarða en sem hlutfall af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði voru samanlögð inngrip bankans rúmlega 21 prósent borið saman við 37 prósent á árinu 2020.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam um 923 milljörðum króna í lok nóvember, eða sem jafngildir um 30 prósentum af landsframleiðslu.

Frá því í ársbyrjun 2017, þegar gjaldeyrisinngripastefna Seðlabankans var endurskoðuð eftir stórfelld kaup á gjaldeyri árin á undan, hefur meginmarkmið stefnunnar verið að minnka snarpar skammtímasveiflur á gengi krónunnar.

Vill ekki vera gerandi á gjaldeyrismarkaði

Í viðtali við Innherja í nóvember síðastliðnum sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri aðspurður ekki „telja það ráðlegt“ að bankinn myndi reyna að styðja við gengi krónunnar í því skyni að vega upp á móti hækkun verðbólgu og verðbólguvæntingar. Benti hann á að Seðlabankinn vilji ekki vera gerandi á gjaldeyrismarkaði heldur frekar að bregðast við óhóflegum sveiflum hverju sinni.

Seðlabankastjóri hefur sagt hann að „telji það ekki ráðlegt“ að bankinn reyni að styðja við gengi krónunnar í því skyni að vega upp á móti hækkun verðbólgu og verðbólguvæntingar.

Hann sagði að gott jafnvægi væri búið að vera gjaldeyrismarkaði að undanförnu sem mætti að einhverju marki má útskýra vegna hreyfinga lífeyrissjóðanna sem virka eins og sjálfvirkur sveiflujafnari fyrir gengið – og það sé af hinu góða.

Litið lengra fram í tímann taldi seðlabankastjóri hins vegar „ekki ólíklegt“ að gengi krónunnar muni styrkjast, einkum þegar ferðaþjónustan kæmi að fullum krafti til baka.

Athugasemd: Fréttin var uppfærð sunnudaginn 30. janúar.


Tengdar fréttir

Vægi erlendra eigna stærstu sjóðanna nálgast óðum fjárfestingarþakið

Vægi erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins, sem eru með eignir upp á samanlagt um 2.500 milljarða króna í dag, hefur hækkað um meira en þriðjung frá því í ársbyrjun 2018. Færist það stöðugt nær lögbundnu 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar sjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra.

Seðlabankastjóri: Mikilvægt að lífeyrissjóðir geti fjárfest meira erlendis

Ekki er útlit fyrir að breytingar verði gerðar strax í byrjun næsta árs til hækkunar á því 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra. Hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins – LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna – var um mitt þetta ár komið í liðlega 42 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×