Viðskipti innlent

Vinnsla Sjó­vá á per­­sónu­­upp­­­lýsingum ekki í sam­ræmi við lög

Eiður Þór Árnason skrifar
Sjóvá upplýsti viðskiptavininn ekki um miðlun upplýsinganna.
Sjóvá upplýsti viðskiptavininn ekki um miðlun upplýsinganna. Vísir/Hanna

Vinnsla tryggingafélagsins Sjóvá á persónuupplýsingum í tengslum við uppgjör bótakröfu vegna umferðarslyss samrýmdist ekki ákvæðum persónuverndarlaga. Þetta er niðurstaða Persónuverndar en brotið varðar ákvæði um fræðsluskyldu og gagnsæi um aðkomu vinnsluaðila persónuupplýsinga.

Viðskiptavinur tryggingafélagsins kvartaði til Persónuverndar í apríl 2020 yfir því að félagið hafi miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum í formi lögregluskýrslu til sérfræðings. Var honum falið að útbúa skýrslu fyrir félagið um hraða- og höggútreiknings vegna umferðarslyss sem kvartandi lenti í.

Einnig var kvartað yfir vinnslu sérfræðingsins á persónuupplýsingum kvartanda í þeim tilgangi að gera umrædda PC Crash-skýrslu fyrir tryggingafélagið. Taldi kvartandi að bæði hafi skort heimild fyrir miðlun upplýsinganna og vinnslu sérfræðingsins þar sem hann hafi ekki veitt samþykki sitt eða haft vitneskju um miðlunina. Sömuleiðis taldi kvartandi miðlun upplýsinganna vera ónauðsynlega.

Kvartandi segir að hann hafi látið Sjóvá hafa lögregluskýrsluna í því skyni að félagið sjálft en ekki að þriðji aðili gæti notað upplýsingarnar til að taka afstöðu til bótaskyldu.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að heimildir hafi verið fyrir vinnslunni en þar sem kvartandi var ekki upplýstur eða fræddur um miðlun gagnanna til sérfræðingsins og eftirfarandi vinnslu hans hafi hún ekki verið í samræmi við ákvæði persónuverndarlaganna um fræðsluskyldu og gagnsæi.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×