Handbolti

„Besta frammistaða landsliðsmanns frá upphafi“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. vísir/Getty

Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson gerðu upp Evrópumótið í handbolta í EM hlaðvarpinu hjá Stefáni Árna Pálssyni í dag.

Þar fóru þeir meðal annars yfir framgöngu Ómars Inga Magnússonar á mótinu en hann átti enn einn stórleikinn þegar íslenska liðið tapaði fyrir því norska í framlengdum leik um 5.sætið í gær.

„Maður sá á honum að hann gat varla skilað sér til baka. Ég þekki hann mjög vel og hann er þvílíkt vinnusamur og kvartar aldrei. Það er ekkert kjaftæði hjá honum. Ef maður gerir upp þetta mót þá er sóknarleikurinn okkar orðinn bara sóknarleikurinn hans Ómars,“ segir Róbert.

Stefán Árni segir íslenska landsliðið hafa verið liðið hans Arons (Pálmarssonar) undanfarin ár og spyr strákana hvort Ómar sé nú kominn með lyklavöldin?

„Já, eigum við ekki bara að segja það? Aron hefur ekki sýnt svona frammistöðu yfir heilt mót,“ segir Ásgeir Örn og Róbert skýtur inn að það hafi enginn sýnt svona frammistöðu yfir heilt mót áður.

„Ég er ekki með söguna upp á 110% en ég man ekki eftir betri frammistöðu. Ég man ekki eftir að menn hafi tengt saman svona marga góða leiki. Hann á ekki einn slæman leik,“ segir Róbert.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.