Innherji

Verðbólga hækkar langt umfram spár greinenda og mælist nú 5,7 prósent

Hörður Ægisson skrifar
Spár greinenda höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi lækka í janúar um 0,15 til 0,2 prósent og að tólf mánaða verðbólgan færi því undir 5 prósent.
Spár greinenda höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi lækka í janúar um 0,15 til 0,2 prósent og að tólf mánaða verðbólgan færi því undir 5 prósent. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári og mælist tólf mánaða verðbólga núna því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012.

Hækkunin á vísitölu neysluverðs, sem er einkum drifin áfram af hækkandi fasteignaverði, er langt umfram spár greinenda en þær höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að hún myndi lækka í janúar um 0,15 til 0,2 prósent. Það hefði þýtt að tólf mánaða verðbólgan færi undir 5 prósent en hún mældist 5,1 prósent í desember.

Samkvæmt nýbirtum verðbólgutölum Hagstofunnar í morgun þá hækkaði kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,5 prósent, sem hafði áhrif á vísitöluna til hækkunar um 0,25 prósent. Þá hækkaði einnig verð á mat og drykkjarvörum um 1,3 prósent og rafmagn og hiti um 3,7 prósent.

Á móti lækkaði verð á fötum og skóm um 8 prósent, sem má rekja til þess að vetrarútsölur eru víða í gangi, og eins verð á húsgögnum og heimilisbúnaði.

Sé húsnæðisliðurinn undanskilin þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,7 prósent á undanförnum tólf mánuðum.

Innherji hefur að undanförnu greint frá því að stærstu heildsölur landsins hafi ekki séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, sagði meðal annars við Innherja að búast mætti við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.

„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum,“ sagði Magnús Óli.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem var birt fyrr í vikunni, var því spáð að verðbólgan myndi hjaðni hægt og rólega á árinu og yrði 3,2 prósent í árslok 2022. Þá gerði Seðlabankinn ráð fyrir að árstaktu verðbólgunnar yrði 4,4 prósent að meðaltali á fyrsta fjórðungi ársins í nýjustu spá sinni frá því í nóvember.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×