Handbolti

Fyrir­liðinn Ýmir Örn: Ég elska þessa stráka alveg út af lífinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði íslenska landsliðsins. EPA-EFE/Zsolt Szigetvary

„Ég held bara að við höfum allir gefið allt sem við áttum í þetta mót. Hvað þá í dag. Þetta eru skrítnar tilfinningar,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, fyrirliði Íslands, eftir einkar súrt eins marks gegn Noregi tap um 5. sætið á EM í handbolta í dag.

Ekki nóg með að leikurinn hafi verið upp á 5. sæti mótsins heldur gaf hann líka þátttökurétt á HM sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári.

„Árangurinn sem slíkur er góður en við erum – ég veit ekki hvort maður geti sagt að maður sér sáttur eftir svona tap eins og í dag. Hvað þá þegar við vorum með þetta í höndunum gegn Króötum, sá leikur situr í mér, því miður,“ sagði Ýmir Örn um frammistöðu íslenska liðsins á mótinu.

„Ég elska þessa stráka alveg út af lífinu. Þetta er þvílíkur hópur sem við erum með, samstaðan er ótrúleg. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta fyrir utanaðkomandi aðilum. Það er einhver tilfinning og augnablik með okkur, mér líður mjög vel innan vallar sem utan. Við vitum hvað við erum að gera og höldum áfram með það sem virkar. Erfitt að útskýra þetta nánar, það er eitthvað með okkur,“ sagði tilfinningaríkur Ýmir Örn einnig að leik loknum.

„Sú tilfinning er alveg æðisleg. Að fá að leiða þessa stráka út á völlinn er frábært, mikill heiður og líklega sá mesti heiður sem ég hef fengið þegar kemur að landsliðinu. Að fá að klæða sig í þessa treyju eru forréttindi og alls ekki sjálfsagður hlutur,“ sagði Ýmir Örn að endingu um tilfinninguna að bera fyrirliðaband Íslands í leik sem þessum.

Klippa: Fyrirliðinn Ýmir Örn eftir naumt tap Íslands

Tengdar fréttir

Guðmundur: Með ólíkindum hvað liðið hefur staðið sig stórkostlega

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, kvaðst afar stoltur af sínu liði eftir leikinn gegn Noregi um 5. sætið á EM í dag. Norðmenn unnu, 33-34, þökk sé flautumarki Haralds Reinkind og tryggðu sér þar með sæti á HM á næsta ári.

Bjarki Már: Bjart­sýnn en svekktur að hafa ekki unnið í dag

Bjarki Már Elísson, ein af stjörnum íslenska landsliðsins í handbolta, var eðlilega mjög svekktur eftir súrt eins marks tap Íslands gegn Noregi í framlengdum leik um 5. sæti mótsins. Ekki nóg með að leikur dagsins hafi verið upp á 5. sæti Evrópumótsins heldur var sæti á HM í Póllandi og Svíþjóð á næsta ári í boði.

Ómar Ingi: Er loksins að spila af eðli­legri getu þó það sé margt hægt að bæta

„Ég held það sé alveg tía. Þetta var bara svekkjandi í dag, við börðumst og gáfum allt en þetta voru bara smáatriði í lokin,“ sagði Ómar Ingi Magnússon – ein af hetjum Íslands á Evrópumótinu í handbolta – um hversu þreyttir menn væru á skalanum 1-10 eftir allt sem íslenska liðið hefur gengið í gegnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×