Handbolti

Sveinar Erlings „reru“ sér vart fyrir kæti

Sindri Sverrisson skrifar
Erlingur Richardsson og hans menn fagna sigrinum gegn Portúgal sem skilaði liðinu með Íslandi upp úr B-riðli á EM.
Erlingur Richardsson og hans menn fagna sigrinum gegn Portúgal sem skilaði liðinu með Íslandi upp úr B-riðli á EM. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Hollendingar komust með dramatískum hætti áfram með Íslendingum í milliriðlakeppnina á EM í handbolta í gær, í fyrsta sinn í sögunni, og fögnuður þeirra var ósvikin.

Á meðan að kvennalandslið Hollands hefur verið eitt það albesta í heimi hefur karlalandsliðið aðeins tvisvar áður verið með á stórmóti, og aldrei unnið eins sterkar þjóðir og Portúgal og Ungverjaland.

Undir stjórn Erlings Richardssonar, og með markahæsta mann mótsins Kay Smits í miklu stuði, hafa Hollendingar hins vegar skráð nýjan kafla í sögubækur sínar.

Hér að neðan má sjá fagnaðarlæti þeirra í búningsklefanum í MVM-höllinni í Búdapest í gær, eftir sigurinn á Portúgal, þar sem leikmenn sameinuðust í eins konar róðrarfagni.

Ein skærasta stjarna mótsins til þessa er Kay Smits, örvhenta skyttan í liði Hollands, sem er langmarkahæstur á EM til þessa með 32 mörk, eða yfir 10 mörk að meðaltali í leik. 

Smits, sem er varaskeifa fyrir Ómar Inga Magnússon hjá Magdeburg, þar sem Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur einnig, skoraði 13 mörk í tapinu gegn Íslandi.

Íslendingar treysta nú á Smits og félaga til að gera mögulega einhverjum af mótherjum Íslands skráveifu, í von um að Ísland komist hugsanlega í undanúrslit mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×