Viðskipti innlent

Hvetja til notkunar #lands­byggða­fyrir­tæki

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá fundi samstarfshóps Digi2Market.
Frá fundi samstarfshóps Digi2Market. Aðsend

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) standa fyrir samfélagsmiðladeginum #landsbyggðafyrirtæki miðvikudaginn 19. janúar. Sem hluti af átakinu er fólk hvatt til að segja frá uppáhalds fyrirtækinu sínu í heimabyggð eða deila sinni starfsemi með því að nota myllumerkið #landsbyggðafyrirtæki eða #ruralbusinessday.

„Markmiðið er að vekja athygli á því frábæra fólki, þjónustu og vörum fyrirtækja í landsbyggðunum, sem eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. Með því að taka þátt í deginum fá fyrirtæki í landsbyggðunum aukinn sýnilega, fá tækifæri til að vaxa, styrkir viðskiptatengsl þeirra út um Evrópu,“ segir í tilkynningu frá SSNV.

Átakið fer fram í samstarfi við Digi2Market samstarfsverkefnið sem er fjármagnað af Evrópusambandinu. Að sögn SSNV geta allir tekið þátt í deginum sem vilja styðja við rekstur fyrirtækja í dreifðari byggðum, hvort sem þau tengjast fyrirtæki eða ekki.

Frumkvöðlar upplifi sig einangraða

,,Lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. En frumkvöðlarnir á bak við fyrirtækin upplifa sig oft einangraða og skynja erfiðleika við að komast inn á stærri markaði. Digi2Market tengir þau við tengslanet á netinu og hjálpar þeim við að auka markaðshlutdeild sína og vaxa. Þú getur hjálpað þeim með því að deila því sem þér finnst best við þau,“ segir Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV, í tilkynningu.

Digi2Market er samstarfsverkefni sex aðila frá Írlandi, Norður-Írlandi, Finnlandi og Íslandi, sem vinnur að bættum möguleikum  fyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landanna til að bæta aðgengi fyrir vörur sínar og þjónustu að mörkuðum utan upprunasvæðisins. SSNV er þátttökuaðili Íslands í verkefninu og hefur unnið með fyrirtækjum á Norðurlandi vestra í stafrænum markaðsmálum. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.