Innherji

Upphrópanir um að refsa atvinnulífinu stuðli að vandræðum á vinnumarkaði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir svigrúm atvinnulífsins til greiðslu launa minnka vegna vaxtahækkana Seðlabankans undanfarið.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir svigrúm atvinnulífsins til greiðslu launa minnka vegna vaxtahækkana Seðlabankans undanfarið.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hlutverk samtakanna að standa vörð um og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins.

„Það kemur launafólki til góða þar sem samkeppnishæft atvinnulíf fjölgar störfum og býður góð kjör. Laun á Íslandi eru með þeim hæstu í heiminum og umsaminn vinnutími óvíða styttri," segir Halldór Benjamín.

Hlutfall launagreiðslna af verðmætasköpun atvinnulífsins er hvergi hærra en á Íslandi, samkvæmt upplýsingum OECD. 

„Kaupmáttur launa hefur vaxið á samningstímabilinu þrátt fyrir kórónukreppuna, andstætt reynslu allra annarra ríkja, og því metnaðarfullt markmið að reyna að verja þá stöðu."

Halldór Benjamín segir heimsfaraldurinn hafa greitt okkar stærstu útflutningsgrein þungt högg og að það taki ferðaþjónustuna langan tíma að ná fyrri styrk. 

„Flestar aðrar útflutningsgreinar standa vel sem og margar þjónustugreinar sem reiða sig eingöngu á heimamarkaðinn. Kjarasamningarnir 340 sem þarf að endurnýja í árslok og á næsta ári byggja ekki á einstökum atvinnugreinum heldur ganga þvert á atvinnulífið. Þannig er ekki, og hefur aldrei verið, hægt að semja um mismunandi launabreytingar eftir atvinnugreinum."

Þess vegna sé óhjákvæmilegt að taka mið af heildarmyndinni. „Sem er sú að laun á Íslandi eru hærri en meðal samkeppnisríkjanna, lægstu laun hafa hækkað mun meira en meðallaun undanfarin ár sem þýðir að lægstu laun eru einnig mjög há miðað við önnur ríki vegna umsaminnar samþjöppunar launaþrepanna. Niðurstaðan er sú að heimsfaraldurinn hefur enn dregið úr möguleikum atvinnulífsins til að hækka laun."

Kjarasamningarnir 340 sem þarf að endurnýja í árslok og á næsta ári byggja ekki á einstökum atvinnugreinum heldur ganga þvert á atvinnulífið. Þannig er ekki, og hefur aldrei verið, hægt að semja um mismunandi launabreytingar eftir atvinnugreinum.

Innistæðulausar launahækkanir stuðli að verðbólgu

Halldór Benjamín segir grundvallarlögmál að launabreytingar stuðli að verðbreytingum. 

„Launabreytingar umfram aukningu framleiðni vinnuafls stuðla að verðbólgu. Aukning framleiðni vinnuafls hefur verið 1,0-1,5 prósent að jafnaði á ári síðustu áratugi. Launabreytingar í heild umfram 3,5-4,0 prósent á ári ógna verðbólgumarkmiði Seðlabankans. 

Kjarasamningsbundnar launahækkanir sem samrýmast verðbólgumarkmiði mega ekki vera meiri en 2,0-2,5 prósent á ári vegna þeirrar innbyggðu launaþróunar sem er í samningsbundnum launakerfum, auk þess sem gera verður ráð fyrir launaskriði þess stóra meirihluta launamanna sem tekur laun umfram lágmarks launataxta," segir hann.

Hvað finnst fulltrúum atvinnurekenda um þau orð sem formaður VR og formaður verkalýðsfélags Akraness hafa látið falla um að „hver einasta króna" sem lögð yrði á heimilin, í formi hærri vaxta, verði sótt til baka í næstu kjarasamningum?

„Laun greiðast úr þeim virðisauka sem skapaður er í atvinnulífinu á hverjum tíma. Sá virðisauki eykst ekki við vaxtahækkanir, þvert á móti minnkar hann."

Svigrúm atvinnulífsins til greiðslu launa minnki því vegna vaxtahækkana Seðlabankans. „Skortur á skilningi á því, og upphrópanir um að refsa atvinnulífinu tvöfalt vegna vaxtahækkana, er stuðlar að vandræðum á vinnumarkaði, samdrætti í atvinnulífinu og fækkun starfa."

Innherji hefur undanfarið og mun áfram birta stutt viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað verður almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.