Innherji

Krónutöluhækkanir komi ekki til greina framvegis

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Friðrik Jónsson er formaður BHM.
Friðrik Jónsson er formaður BHM.

„Það liggur fyrir að lífskjarasamningarnir voru háskólamenntuðum um margt óhagfelldir. Það stefnir í að kaupmáttaraukning þeirra verði í besta falli engin á mörgum mörkuðum. Það mun hafa áhrif á okkar áherslur. Krónutöluhækkanir koma ekki til greina framvegis," segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Hann segir stærstu áskorunina vanmat á menntun í íslensku hagkerfi. „Munur á ráðstöfunartekjum eftir menntastigi hefur enda minnkað til muna og er orðinn lítill í alþjóðlegum samanburði. Í mörgum tilfellum er lítill sem enginn hvati fyrir fólk að sækja háskólamenntun enda útheimtir menntunin kostnað og tíma. Það er mikil samfélagsleg áskorun, ekki bara áskorun BHM," segir Friðrik.

Hverju hefur heimsfaraldurinn breytt varðandi þær áherslur?

„Í fyrsta lagi hefur heimsfaraldur minnt okkur rækilega á mikilvægi sérfræðiþekkingar fyrir íslenskt samfélag. Hvar værum við í dag ef við hefðum ekki haft fólkið okkar í heilbrigðisþjónustunni eða öfluga sérfræðinga í stjórnsýslu til að samhæfa viðbrögðin og styðja fólk og fyrirtæki?"

Í öðru lagi hafi heimsfaraldurinn líka sýnt fram á nauðsyn þess að huga betur að samkeppnishæfu starfsumhverfi, starfsálagi og líðan starfsmanna. „Næstu kjarasamningar þurfa að snúast um lífsgæði til jafns við launahækkanir. Þar munum við meðal annars leggja megináherslu á að verja styttingu vinnuvikunnar. Færa þarf þá breytingu í lög."

Rétturinn til að aftengjast

Heimsfaraldurinn hefur breytt ýmsu á vinnumarkaði og opnað augu margra fyrir möguleikum fjarvinnu. „Við horfum í raun fram á mjög stórar breytingar á vinnumarkaði til framtíðar. Fjarvinna og rammi utan um hana munu koma inn á samningaborðið. Að sama skapi er rétturinn til að aftengjast eitthvað sem þarf að ræða og skýra. Þá þarf að líta sérstaklega til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi."

Næstu kjarasamningar þurfa að snúast um lífsgæði til jafns við launahækkanir. Þar munum við meðal annars leggja megináherslu á að verja styttingu vinnuvikunnar.

Samræmast kröfur um hærri laun gagnrýni innan úr verkalýðshreyfingunni á hækkandi vexti Seðlabankans á tímum þegar verðbólga mælist yfir 5 prósent?

Friðrik segir eðlilegt að gagnrýna vaxtahækkanir Seðlabankans á þessum tímapunkti enda áhöld um hvort þær slái á eftirspurn og komi böndum á verðbólguna. „Það er nú svo að verðbólguvaldandi þættir nú um stundir liggja flestir „utan þjónustusvæðis“ Seðlabankans!"

Meginmarkmiðið að auka kaupmátt

Friðrik segir allt benda til þess að heimsfaraldur hafi verið ójafnaðarkreppa en í kjaraviðræðum verði að sjálfsögðu horft til allra þeirra þátta sem hafa áhrif á kaupmátt, lífskjör og réttindi á vinnumarkaði. 

Það eru sameiginlegir hagsmunir launafólks, atvinnulífs og hins opinbera að vaxtastigið sé ekki hærra en það þarf að vera.

„Við sjáum að vaxtahækkanir eru að hafa mikil áhrif á greiðslubyrði húsnæðis hjá því fólki sem minnst má sín í kjölfar heimsfaraldurs. Stór hluti ráðstöfunartekna fer í afborganir lána og viðnám fyrir vaxtahækkunum lítið. Það eru sameiginlegir hagsmunir launafólks, atvinnulífs og hins opinbera að vaxtastigið sé ekki hærra en það þarf að vera. Í því samhengi ber að nefna að margir seðlabankar Vesturlanda hafa talið verðbólguþrýstinginn tímabundinn og því ekki ástæða til vaxtahækkana."

Friðrik segir meginmarkmið BHM í næstu kjarasamningum sé að auka kaupmátt. „Ef við teljum að misbrestur hafi orðið í stjórn efnahagsmála verður það uppi á borðum í samtali verkalýðshreyfingarinnar og þeirra samningsaðila. Það er óumflýjanlegt."


Innherji mun á næstu dögum birta viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað verður almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.