Innherji

Einkaneysla gæti farið fram úr spám Seðlabankans

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
kringlan-eftir
Vísir/Vilhelm

Nýjustu kortaveltutölur Seðlabanka Íslands gefa vísbendingu um að vöxtur í einkaneyslu á fjórða fjórðungi síðasta árs verði umfram væntingar Seðlabankans, sem eykur líkur á frekari vaxtahækkunum. Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Tvö met voru slegin í desember. Kortavelta innanlands, leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur aldrei verið jafn mikil og heildarkortavelta landsmanna, leiðrétt fyrir gengis- og verðbreytingum, náði hæsta gildi sínu frá upphafi mælinga.

Ef horft er yfir fjórða ársfjórðung 2021 í heild sinni jókst kortavelta landsmanna, á föstu gengi og verðlagi, um 17,8 prósent milli ára og þarf að leita aftur til ársins 2006 til að finna álíka vöxt.

Erna Björg bendir á að Seðlabankinn geri ráð fyrir 5 prósenta ársvexti í einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi 2021.

Arion banki

„Þótt Hagstofan hafi lag á því að koma greinendum í opna skjöldu með þjóðhagsreikningum sínum, og það væri alls ekki nýtt að sjá slaka einkaneyslu þvert á þróun kortaveltu, þá tel ég líklegt að einkaneyslan á fjórðungnum muni fara langt fram úr væntingum Seðlabankans, og styðja þar með við frekari vaxtahækkanir,“ segir Erna Björg.

Ólíklegt er, að sögn Ernu Bjargar, að janúarmánuður verði metamánuður sökum hertra sóttvarnaraðgerða en á móti vegur að staða faraldursins virðist hafa minni áhrif á neysluvilja heimilanna en t.d. árið 2020.

„Maður veltir einnig fyrir sér hvort þetta muni hafa áhrif á peningastefnunefndina, hvort hún kjósi að taka smærri skref í einu í vaxtahækkunarferlinu þrátt fyrir verðbólgu yfir 5 prósentum.“

Töluvert meiri eyðsla á hvern ferðamann

Tölurnar varpa einnig ljósi á jákvæða þróun í kortaveltu erlendra ferðamanna.

„Það þýðir lítið að skoða breytingar milli ára í heildarkortaveltu ferðamanna eða kortaveltu á hvern ferðamann. Þegar örfáar hræður eru á landinu þýðir lítið að gera samanburð milli ára,“ útskýrir Erna Björg. Miklu gagnlegra sé að skoða seinni hluta síðasta árs, þegar ferðaþjónustan komst á skrið, og bera saman við árið 2019.

Arion banki

„Þá má sjá að hver erlendur ferðamaður er að eyða nokkuð meira en á sama tíma árið 2019, eða í kringum 20-30 prósent. Það gæti að einhverju leyti endurspeglað lengri dvalartíma en vonandi einnig að hinu áragamla markmiði um að laða til landsins betur borgandi ferðamenn sé náð, að minnsta kosti í augnablikinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×