Viðskipti innlent

N1 tekur músa­gildrur sem ekki má nota úr sölu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Músagildrurnar hafa verið teknar úr sölu hjá N1.
Músagildrurnar hafa verið teknar úr sölu hjá N1. Vísir

Fyrirtækið N1 hefur tekið límgildrur, sem Matvælastofnun segir ekki samræmast lögum um dýravelferð, úr sölu. Límgildrurnar voru til sölu á sölustöðum og í veferslun N1 þar til síðdegis í dag. 

Matvælastofnun hefur ítrekað gagnrýnt notkun á límgildrunum, fyrst árið 2014 með tilkynningu á vef sínum. Erindið var síðast ítrekað í desember 2021 og sagði í tilkynningu stofnunarinnar: „Stofnunin vill sérstaklega árétta að notkun límbakka og drekkingargildra brjóta gegn ákvæðum laga um velferð dýra.“

Vísir birti frétt um málið síðdegis í dag þar sem Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir, gagnrýndi notkun gildranna. Hún benti þó á að Bagalegt sé að lögin taki ekki beint á sölu eða dreifingu þeirra. Því sé heimilt að selja gildrurnar og dreifa þeim, en ekki nota þær. 

„Það sem við gerðum bara er að við erum búin að biðja starfsfólk að taka þessa vöru úr sölu hjá okkur. Bæði í vefverslun og á öllum sölustöðum,“ segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá N1. 

Heildverslunin Streymi flytur gildrurnar inn og segir Þyrí að nú bíði N1 eftir frekari fyrirmælum frá byrgjanum. 

„Við treystum á að aðilarnir sem við erum að kaupa af beri ábyrgð á því sem þeir eru að selja og flytja inn,“ segir Þyrí. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.