Körfubolti

Brooklyn Nets mætti með alla þrjár súperstjörnurnar og vann stórt í Chicago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant skorar eina af körfum sínum í sigrinum á Chicago Bulls í nótt.
Kevin Durant skorar eina af körfum sínum í sigrinum á Chicago Bulls í nótt. AP/Charles Rex Arbogast

Brooklyn Nets sýndi styrk sinn í NBA-deildinni í körfubolta í nótt með sannfærandi útisigri á öflugu liði Chicago Bulls en þetta var einn af fáum leikjum í vetur þar sem allar þrjá súperstjörnur Brooklyn liðsins voru í búning.

Kevin Durant skoraði 27 stig og gaf 9 stoðsendingar þegar Brooklyn Nets vann 26 stiga sigur á Chicago Bulls, 138-112, en Jamas Harden bætti við 25 stigum, 16 stoðsendingum og 7 fráköstum. Kyrie Irving var reyndar bara með 9 stig en þetta var hans þriðji leikur á tímabilinu.

Brooklyn Nets hefur unnið báða leiki sína örugglega þegar þeir Durant, Harden og Irving hafa allir verið með. Bulls-vörnin átti fá svör á móti fullmönnuðu Brooklyn liði sem soraði 37 stig eða meira í þremur af fjórum leikhlutum sínum í leiknum.

Chicago Bulls vann reyndar upphafsmínútur leiksins 7-2 og Brooklyn var bara tveimur stigum yfir í hálfleik. Nets menn fóru hins vegar á flug í þriðja leikhlutanum sem liði vann með tuttugu stigum, 39-19.

Chicago liðið hefur spilað vel að undanförnu og hefur verið eitt allra besta liðið í deildinni. Þessi stórsigur er því sterk skilaboð frá Brooklyn Nets um að þar sé komið lið líklegt til að fara alla leið á þessu tímabili.

LeBron James gerði sitt en það dugði ekki á móti Sacramento Kings. King-liðið hafði tapað fimm leikjum í röð fyrir leikinn en vann 125-116 sigur á Los Angeles Lakers í nótt.

LeBron var með 34 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en fékk ekki mikla hjálp frá Russell Westbrook sem klikkaði á tólf af fjórtán skotum sínum í leiknum. Russell endaði leikinn með 8 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar. Malik Monk var með 22 stig.

Hjá Kings var De'Aaron Fox með 29 stig, Harrison Barnes skoraði 23 stig og Tyrese Haliburton var með 14 stig og 10 stoðsendingar.

Lakers liðið var yfir í hálfleik en tapaði þriðja leikhlutanum 23-40. Lakers menn náði að minnka muninn niður í tvö stig, 116-118, þegar 96 sekúndur voru eftir en Sacramento Kings endaði leikinn á 7-0 spretti.

Jaylen Brown og Jayson Tatum fóru báðir á kostum þegar Boston Celtics vann 119-100 sigur á Indiana Pacers. Brown skoraði 34 stig og Tatum var með 33 stig. Dennis Schroder bætti síðan við 23 stig og Boston endaði sex leikja taphrinu á útivelli.

Þetta var líka í annað skiptið á þremur dögum sem Boston vann Indiana. Myles Turner var með 18 stig og Domantas Sabonis skoraði 17 stig í áttunda tapi Pacers í síðustu níu leikjum.

Gordon Hayward skoraði 30 stig þegar Charlotte Hornets vann 109-98 útisigur á Philadelphia 76ers en Charlotte endaði með þessu sextán leikja og fimm ára taphrinu sínu í innbyrðis leikjum liðanna. Charlotte hafði ekki unnið 76ers síðan 2. nóvember 2016.

Hayward hitti úr öllum níu skotum sínum í fyrri hálfleiknum og var þá kominn með 22 stig. Joel Embiid skoraði 31 stig í fimmta leiknum í röð en Philadelphia 76ers var búið að vinna sjö leiki í röð fyrir leikinn.

RJ Barrett skoraði 32 stig fyrir New York Knicks og Mitchell Robinson var með 19 stig þegar liðið endaði sex leikja sigurgöngu Dallas Mavericks með 108-85 sigri. Julius Randle var með 17 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Dallas var Luka Doncic með 21 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar.

Dejounte Murray var með 32 stig og þrennu (11 stoðsendingar og 10 fráköst) en það kom þó ekki í veg fyrir að San Antonio Spurs tapaði 124-128 á heimavelli á móti Houston Rockets. Eric Gordon skoraði 31 stig fyrir Houston liðið. Þetta var fjórða tap Spurs í röð og það sjöunda í síðustu átta leikjum.

Darius Garland var með þrennu (11 stig, 10 fráköst, 15 stoðsendingar) þegar Cleveland Cavaliers vann tuttugu stiga útisigur á Utah Jazz, 111-91. Lamar Stevens skoraði 23 stig og Finninn Lauri Markkanen var með 20 stig.

  • Úrslitin í NBA í nótt:
  • Chicago Bulls - Brooklyn Nets 112-138
  • Sacramento Kings - Los Angeles Lakers 125-116
  • Indiana Pacers - Boston Celtics 100-119
  • Philadelphia 76ers - Charlotte Hornets 98-109
  • Washington Wizards -Orlando Magic 112-106
  • Atlanta Hawks - Miami Heat 91-115
  • New York Knicks - Dallas Mavericks 108-85
  • San Antonio Spurs - Houston Rockets 124-128
  • Utah Jazz - Cleveland Cavaliers 91-111
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×