Handbolti

Fimmtán smit hjá Serbum og bara tveir dagar í fyrsta leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbar unnu Frakka í undankeppni EM en smitlukkan hefur ekki verið með liðinu að undanförnu.
Serbar unnu Frakka í undankeppni EM en smitlukkan hefur ekki verið með liðinu að undanförnu. Getty/ Srdjan Stevanovic

Serbneska handboltalandsliðið hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum í aðdraganda Evrópumeistaramótsins í handbolta sem hefst á fimmtudaginn.

Frá 3. janúar síðastliðnum þá hafa fimmtán manns í hópnum fengið kórónuveiruna og það gefur að skilja að undirbúningur liðsins hefur ekki verið upp á marga fiska á meðan.

Serbneska handboltasambandið greindi frá þessu á síðu sinni en þar kom fram að níu leikmenn og sex starfsmenn liðsins hafi smitast. Einn af þessum er þjálfari Toni Gerona.

Fyrsti leikur Serbíu í keppninni er á móti Úkraínu á fimmtudaginn.

Íslenska handboltalandsliðið hefur verið í sóttvarnarkúlu í meira en viku og flýgur út til Ungverjalands í dag.

Það voru þrír íslenskir leikmenn smitaðir í aðdraganda mótsins en komu til móts við liðið eftir að þeir voru búnir að ná sér. Ekki hafa greinst nein smit í síðustu kórónuveiruprófum íslenska liðsins.

Serbía er í C-riðli með Króatíu, Frakklandi og Úkraínu en tvö efstu lið riðilsins komast í milliriðil. Þar verða Serbar með Íslandi í milliriðli komist báðar þjóðir áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×