Körfubolti

Mikilvægur sigur hjá Martin og félögum í Valencia

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Martin átti flottan leik í dag
Martin átti flottan leik í dag EPA-EFE/Miguel Angel Polo

Martin Hermannsson og félagar hans í spænska úrvalsdeildarliðinu Valencia unnu góðan sigur á Unicaja Malaga á útivelli í dag. Lokatölur leiksins urðu 82-87.

Fyrir leikinn var Valencia í sjötta sæti deildarinnar með átta sigra og sex töp en Unicaja voru í því tíunda með sjö sigra og átta töp.

Unicaja byrjaði leikinn betur og komst fljótlega átta stigum yfir. Leikmenn liðsins voru gríðarlega grimmir í vörninni og tókst að trufla sóknarleik Valencia sem gengur mestmegnis upp á að nýta boltahindranir til þess að komast að körfunni. Valencia náði þó vopnum sínum og minnkaði muninn niður í þrjú stig, 20-17.

Gestirnir byrjuðu annan leikhlutann mjög sterkt og komust yfir fljótlega. Leikmenn Unicaja létu dómara leiksins fara mikið í taugarnar á sér á þessum kafla og uppskáru þrjár tæknivillur í leikhlutanum. Staðan í hálfleik 32-44 fyrir Valencia.

Þriðji leikhlutinn var svo eign Valencia sem unnu leikhlutann með sex stigum. 22-16 og héldu áfram að byggja upp góða forystu. Vörn heimamanna var ekki upp á marga fiska í leikhlutanum og lét þjálfari liðsins, Fotis Katsukaris, þá heyra það í leikhléum. Staðan eftir þrjá leikhluta var 48-66.

Valencia náði mest 23 stiga forystu í fjórða leikhlutanum en þá fór að síga á ógæfuhliðina. Unicaja skoruðu þrist eftir þrist og minnkuðu muninn mest niður í fimm stig. En nær komust þeir ekki. Martin var ískaldur á vítalínunni og kláraði leikinn þar. Lokatölur 82-87 fyrir Valencia.

Martin Hermannsson átti flottan leik fyrir Valencia, skoraði 16 stig og var stigahæstur hjá Valencia. Hann setti ellefu af tólf vítaskotum sínum í leiknum. Stigahæstur hjá Unicaja var Norris Cole með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×