Frítíminn

Dagur í lífi Kristjáns á Osushi: „Alltaf stressaður yfir því að hrísgrjónin klárist"

Ritstjórn Innherja skrifar
Kristján Þorsteinsson er annar eiganda Osushi.
Kristján Þorsteinsson er annar eiganda Osushi.

Kristján Þorsteinsson er annar eigandi tveggja veitingastaða Osushi í Tryggvagötu og í Hafnarfirði. Hann segir hrísgrjón spila undarlega stóra rullu í lífi sínu og segir draum sinn hafa ræst þegar Brauð og Co opnaði bílalúgu.

Hann segir veitingamenn, líkt og landsmenn alla, orðna langþreytta á ástandinu en ætlar sér í gegnum það - en þætti vænt um að ráðamenn gætu gert honum lífið örlítið bærilegra með því að leyfa honum að selja hvítvín með take-away sushiinu.

08.00 Ég vakna oftast um áttaleytið og ætla sjálfur út með hundana, en enda á að grátbiðja kærastann minn um að klára málið. Hann gerir það yfirleitt og ég lofa þá að vera með rjúkandi bolla fyrir hann þegar hann kemur úr göngunni.

Jenný er annar tveggja hunda Kristjáns, og er af tegundinni Pug.

09.30 Dagurinn hefst á skrifstofuvinnu og ég þakka Guði fyrir alla daga sem ég þarf ekki að skila VSK-skýrslu. Þá daga sem ég þarf að gera það er ég rosalega góður við mig og kem við í bakaríi og kaupi mér croissant og kaffi og keyri löturhægt á kontórinn svo ég þurfi ekki að byrja alveg strax. Ég heyrði af því um daginn að Brauð og Co væri að opna bílalúgu og það var draumur að rætast. Mun liggja í þeirri lúgu á nýju ári.

Ég vakna oftast um áttaleytið og ætla sjálfur út með hundana, en enda á að grátbiðja kærastann minn um að klára málið.

11.00 Við systir mín eigum saman veitingastaðina tvo og deilum forræði. Við skiptum með okkur stöðunum, með viku og viku fyrirkomulagi og þessa vikuna er ég með Tryggvagötuna. Oftast fer mikið af deginum í að græja hið ýmsa fyrir staðina, það þarf að sækja aðföng, passa að vaktir séu mannaðar og setja hvítvín á kælinn. Það er óneitanlega skrýtið að þrátt fyrir þær háu atvinnuleysistölur sem við höfum verið að sjá undanfarin misseri, er ótrúlega erfitt að fá starfsfólk til að koma og vinna.

Kristján hefur verið í veitingageiranum í þrjá áratugi.
Ég heyrði af því um daginn að Brauð og Co væri að opna bílalúgu og það var draumur að rætast. Mun liggja í þeirri lúgu á nýju ári.

Þegar maður á sushi-veitingastað þá spila hrísgrjón líka undarlega stóra rullu í lífi manns. Ég er alltaf stressaður um að grjónin klárist, svo ég hringi í birgjann að minnsta kosti einu sinni á dag til að passa að sé nóg til.

14.30 Hádegistörnin er búin á staðnum og þá fer ég sjálfur að huga að hádegismat. Ég reyni eftir fremsta megni að enda ekki í Brauð og Co lúgunni, því það er nóg að fara í bakarí einu sinni á dag, en þetta hádegið læt ég það eftir mér. Það er svo erfitt að vera veitingamaður í heimsfaraldri að mér finnst ég eiga það skilið.

Attilla Demeter, kokkur og kærasti Kristjáns, og Kristján á Osushi í Tryggvagötu. Attilla er frá Ungverjalandi og þeir reka saman lítið vörumerki, The Hungry Chef. Kristján mælir sérstaklega með gúllassúpunni.

16.00 Ég kíki í eldhúsið til kærastans, en við rekum saman lítið vörumerki sem heitir The Hungry Chef - sem eru tilbúnir réttir af ýmsu tagi sem við seljum í nokkrum verslunum í bænum. Hann er frá Ungverjalandi og ég verð að fá að mæla með gúllassúpunni hans!

17.00 Ég fer í þjónagallann og afgreiði mína góðu viðskiptavini fram eftir kvöldi. Það er mismikið að gera á stöðunum eftir kvöldum, en fjöldatakmarkanir gera það að verkum að take-away viðskiptavina hefur færst mikið í aukana. Þegar gestir setjast í minna mæli inn á staðinn segir það sig sjálft að minna er um að selja hvítvínsglasið með og það hefur veruleg áhrif á reksturinn.

Nema að það sé stjórnvöldum sérstakt kappsmál að hvítvínsflaskan sé keypt í netverslun Selfridges eða Winebuyer.com frekar en á mínum veitingastað?

Það er nefnilega bannað með lögum á Íslandi að selja óopnaðar áfengisumbúðir með sóttum mat. Gestir okkar mega því eingöngu njóta matarins með víni sem keypt er í áfengisbúðum ríkisins eða í erlendri netverslun. Nú væri ráð að breyta þessari úreltu löggjöf, enda gæti það gerst með einfaldri lagabreytingu að velta mín og margra kollega minna gæti aukist nægilega til að koma veitingastöðum og starfsfólki þeirra yfir stærsta skaflinn.

Nema að það sé stjórnvöldum sérstakt kappsmál að hvítvínsflaskan sé keypt í netverslun Selfridges eða Winebuyer.com frekar en á mínum veitingastað?

Kristján og Guðrún Jóhannsdóttir, vinkona hans á góðri stundu.

21.00 Ég loka staðnum og geng upp í íbúðina okkar, sem er í sömu götu og veitingastaðurinn. Ég sæki hundana og geng einn hring um bæinn og reyni að draga kærastann með. 

Við látum okkur dreyma um að stoppa á bar í eitt rauðvínsglas en það er allt lokað. Mikið hlakka ég til þegar þessum faraldri lýkur!


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×