Handbolti

Mun vægari reglur um smitaða leikmenn á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir okkar á æfingu í Víkinni. Á milli æfinga eru þeir að mestu lokaðir af í búblu og þannig verður það einnig á EM sem hefst í næstu viku.
Strákarnir okkar á æfingu í Víkinni. Á milli æfinga eru þeir að mestu lokaðir af í búblu og þannig verður það einnig á EM sem hefst í næstu viku. HSÍ

Handknattleikssamband Evrópu hefur ákveðið að milda allhressilega reglur sínar varðandi leikmenn sem smitast af kórónuveirunni í aðdraganda EM sem hefst næsta fimmtudag.

Reglan var áður sú að leikmenn þyrftu að fara í 14 daga einangrun ef þeir smituðust fyrir EM, og 10 daga einangrun ef þeir smituðust á mótinu.

Samkvæmt Handball-Planet, og sænska handboltafréttamanninum Johan Flinck, hefur EHF nú ákveðið að leikmenn þurfi fimm daga einangrun eftir að smit greinist, og að sýna fram á tvö neikvæð próf, til að mega spila á EM.

Smit hafa komið upp hjá nánast öllum landsliðunum sem keppa á EM en mótið hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu næsta fimmtudag, og miklum fjölda vináttulandsleikja verið aflýst.

Ísland leikur sinn fyrsta leik gegn Portúgal 14. janúar og mætir svo Hollandi 16. janúar og Ungverjalandi 18. janúar.

Ekki er vitað um smit í íslenska hópnum sem stendur en þrír leikmenn smituðust undir lok síðasta árs. Einn var enn að ljúka einangrun þegar hópurinn kom saman í byrjun vikunnar, og tveir sóttkví, en engin smit hafa greinst hjá þeim sem eru í búblunni á hóteli íslenska liðsins.

Litáar hættu engu að síður við komu sína til landsins og því verður ekkert af vináttulandsleikjunum sem fram áttu að fara á Ásvöllum á morgun og sunnudag. Íslenski hópurinn heldur af stað til Búdapest næsta þriðjudag.


Tengdar fréttir

„Þá skall þetta bara á okkur“

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, slapp við kórónuveirusmit en tólf úr leikmannahópi og starfsliði hans hafa greinst með smit eftir æfingamót í Póllandi á milli jóla og nýárs.

Erlingur reiðir sig á tölvunarfræðing, lækni og endurskoðanda á EM

Á meðan að kvennalandslið Hollands í handbolta hefur fimm sinnum unnið til verðlauna á stórmótum þá hefur karlalandsliðið rétt kynnst því að spila á stórmóti. Erlingur Richardsson var fenginn til að stýra karlaliðinu í rétta átt og koma leikmönnum úr áhugamennsku í atvinnumennsku.

Daníel kallaður inn fyrir Svein

Daníel Þór Ingason hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn vegna meiðsla Sveins Jóhannssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×