Innherji

Jón Arnór Stefánsson ráðinn til Fossa markaða

Hörður Ægisson skrifar
Jón Arnór, sem var meðal annars valinn íþróttamaður ársins árið 2014, mun starfa í eignastýringarteymi félagsins.
Jón Arnór, sem var meðal annars valinn íþróttamaður ársins árið 2014, mun starfa í eignastýringarteymi félagsins.

Jón Arnór Stefánsson, sem var besti körfuknattsleiksmaður Íslands um langt árabil, hefur haslað sér völl á nýjum starfsvettvangi og verið ráðinn til verðbréfafyrirtækisins Fossa markaða.

Þar mun Jón Arnór starfa í teymi eignastýringar hjá félaginu sem hefur verið að stækka ört síðustu misseri.

Jón Arnór, sem er í MBA námi við Háskólann í Reykjavík auk þess að stunda nám í verðbréfaviðskiptum, kemur til Fossa markaða frá BDA Sports Management en áður var hann í eigin fyrirtækja rekstri.

Jón Arnór, sem lagði skóna á hilluna á síðasta ári, á að baki afar farsælan körfuboltaferil og var meðal annars Íslandsmeistari með KR fimm sinnum og einu sinni bikarmeistari. Meiri­hluta fer­ils­ins lék hann hins vegar er­lend­is sem at­vinnumaður í Þýskalandi, Banda­ríkj­un­um, Rússlandi, Ítal­íu og á Spáni.

Fossar markaðir, sem hafa verið á meðal leiðandi verðbréfafyrirtækja hér á landi frá stofnun árið 2015, eru að færa út kvíarnar í starfsemi sinni og stefna nú að því að verða fjárfestingabanki, eins og Innherji greindi frá í síðasta mánuði. Skilaði félagið þannig nýlega inn umsókn til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem óskað var eftir því að fá starfsleyfi sem fjárfestingabanki.

Fyrr á þessu ári kom félagið á fót eignastýringarsviði og þá stóðu Fossar einnig að stofnun sjóðastýringarfyrirtækisins Glyms eignastýring, ásamt Guðmundi Björnssyni sem er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins, en það mun leggja áherslu á sérhæfðar fjárfestingar auk sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta.

Starfsmönnum Fossa markaða hefur fjölgað talsvert að undanförnu en í lok síðasta árs var meðal annars Róbert Grönqvist ráðinn frá Íslandsbanka og fer hann fyrir áhættustýringu félagsins.

Á árinu 2021 voru Fossar með næst mestu hlutdeildina í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöllinni, litlu minni en Arion banki, og var hún tæplega 21 prósent. Þá var félagið sömuleiðis með einna mestu hlutdeildina í viðskiptum skuldabréf – á eftir Íslandsbanka og Arion – og nam hún um 16,2 prósent á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Jón Arnór: Fyrst og fremst þakklátur

Jón Arnór Stefánsson var skiljanlega ekki sáttur við að hafa fallið úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta þegar Valur tapaði fyrir KR 89-86 fyrr í kvöld. Hann var hinsvegar þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í þessu einvígi og að hafa fengið að spila körfubolta en hann tilkynnti að hann væri hættur að spila körfubolta. Hann var spurður að því hvernig tilfinningarnar væru strax eftir leik.

Jón Arnór hættur

Jón Arnór Stefánsson er hættur í körfubolta. Þetta staðfesti hann í samtali við Stöð 2 Sport að loknum leik Vals og KR í átta liða úrslitum Domino's deildar karla í kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.