Handbolti

Litáar koma ekki og landsliðið fær enga æfingaleiki fyrir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska liðið fer til Ungverjalands á þriðjudaginn. Fyrsti leikur þess á EM er gegn Portúgal föstudaginn 14. janúar.
Íslenska liðið fer til Ungverjalands á þriðjudaginn. Fyrsti leikur þess á EM er gegn Portúgal föstudaginn 14. janúar. vísir/Hulda Margrét

Ekkert verður af tveimur vináttulandsleikjum Íslands og Litáens í handbolta karla. Íslenska liðið leikur því enga æfingaleiki áður en Evrópumótið hefst.

Vegna stöðu kórónuveirufaraldursins í Evrópu hættu Litáar við að koma til Íslands. Skilaboð þess efnis bárust skrifstofu HSÍ í hádeginu. Fyrirhugaðir voru tveir vináttulandsleikir milli Íslendinga og Litáa á Ásvöllum, 7. og 9. janúar.

Ekki verður hægt að finna aðra andstæðinga með svo skömmum fyrirvara og íslenska liðið fær því enga æfingaleiki áður en EM hefst í næstu viku.

Íslenska liðið mun æfa hér á landi fram að brottför til Ungverjalands á þriðjudaginn. Ísland hefur leik á EM gegn Portúgal föstudaginn 14. janúar. Ísland mætir svo Hollandi 16. janúar og Ungverjalandi þann átjánda.

Litáen er einnig á leið á EM. Litáar eru í riðli með Norðmönnum, Rússum og Slóvökum. Fyrsti leikur þeirra er gegn Rússlandi fimmtudaginn 13. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×