Handbolti

Strangar reglur sem erfitt verður að vinna eftir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin Boquist, aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins.
Martin Boquist, aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins. Ludvig Thunman/BILDBYRÅN

EM í handbolta karla sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu hefst þann 13. janúar næstkomandi. Strangar reglur verða á mótinu og munu leikmenn sem smitast af Covid-19 ekki fá að taka þátt fyrr en tveimur vikum eftir að smit greinist.

Kórónuveiran heldur áfram að setja mark sitt á líf okkar allra og enn á ný fer stórmót í handbolta fram þar sem veiran spilar full stóran þátt í undirbúningi og mögulega lokaniðurstöðu mótsins.

Handknattleiksamband Evrópu, EHF, hefur greint frá því að leikmenn sem smitist af veirunni megi ekki snúa aftur á völlinn fyrr en tveimur vikum – 14 dögum – eftir að smit greinist.

Þjálfarateymi sænska landsliðsins, Glenn Solberg og Martin Boquist, segja í viðtali við Aftobladet í Svíþjóð að það sé nær ógerlegt að vinna eftir þessum reglum.

„Ef leikmaður greinist á keppnisstað er mótið úr sögunni,“ sagði Boquist um málið en tvær vikur er langur tími í íþróttum.

Fjöldi liða hefur glímt við smit í sínum leikmannahópum og mæta því ekki fullskipuð til leiks en halda í vonina að leikmenn geti komið inn af krafti eftir að einangrun lýkur.

„Reglurnar eru mjög strangar og munu gera mörgum erfitt fyrir. Ef leikmaður greinist núna missir hann af öllum þremur leikjunum í riðlakeppninni. Við krossum fingur og reynum að gera okkar besta úr því sem komið er,“ bætti Solberg við.

„Við teljum að þetta geti ekki virkað. Við vitum að margar þjóðir eru í vandræðum sem stendur og það gæti reynst erfitt fyrir EHF að standa við tveggja vikna regluna,“ sagði Boquist að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×