Innherji

Of flókið regluverk kemur niður á eftirliti með fjármálakerfinu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Unnur hefur farið fyrir fjármálaeftirliti á Íslandi frá árinu 2012. 
Unnur hefur farið fyrir fjármálaeftirliti á Íslandi frá árinu 2012.  Seðlabanki Íslands

Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, segir að regluverkið í kringum fjármálakerfið sé sennilega orðið flóknara en góðu hófi gegnir. Umstangið í kringum innleiðingu á Evrópugerðum kemur niður á getu stofnunarinnar til að sinna mikilvægum eftirlitsstörfum.

Í samtali við Innherja tekur Unnur að miklu leyti undir það sem kom fram í viðtali Financial Times við fjármálaeftirlitsstjóra Danmerkur og Noregs. Þeir sögðu að eftirlitsstofnanirnar hefðu sífellt minni burði til að sinna eftirliti vegna þess að þær þyrftu að verja svo miklum tíma og mannafla í regluverkið sjálft.

„Ég er sammála kollegum mínum að miklu leyti. Sennilega er komið að þeim tímapunkti að regluverkið er orðið flóknara en góðu hófi gegnir. Þegar regluverkið er komið út í öfgar er hætta á því að það þjóni ekki þeim markmiðum sem að er stefnt,“ segir Unnur, sem hefur farið fyrir fjármálaeftirlitinu frá árinu 2012.

Starfsfólk Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands aðstoðar fjármálaráðuneytið að miklu leyti við að semja lagafrumvörp sem varða innleiðingar á Evróputilskipunum. Unnur segir að í því felist heilmikil vinna en auk þess er Seðlabankanum falið að setja fjölmargar reglur og innleiða viðmiðunarreglur sem eru túlkunarskjöl fyrir fjármálaeftirlitið og eftirlitsskyld fyrirtæki við framkvæmd laganna.

„Við allt þetta bætist að fjármálaeftirlitið þarf að veita upplýsingar til evrópskra eftirlitsstofnana er varða ýmis mál sem eiga misvel við hér á landi,“ segir Unnur. „Því fylgja heilmiklar kröfur sem eru stundum ekki í samræmi við okkar forgangsröðun. Við verðum hins vegar að taka þátt í þeirri vinnu til þess að viðhalda góðu orðspori.“

Ég held að það sé ógerningur fyrir fólk sem vinnur ekki við þetta að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og flókið regluverkið er orðið.

Öll þessi vinna kemur niður á öðrum eftirlitsstörfum en Unnur segir að fjármálaeftirlitið hafi metnað til þess að sinna frumkvæðiseftirliti á ýmsum sviðum. Sem dæmi nefnir hún netöryggisáhættu, stjórnarhætti fyrirtækja á fjármálamarkaði og vöktun útlánagæða í bankakerfinu. 

„En á seinni árum hefur mikill þungi í starfseminni verið í innleiðingu á Evrópugerðum. Ég held að það sé ógerningur fyrir fólk sem vinnur ekki við þetta að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og flókið regluverkið er orðið.“

Er lausnin sú að fá undanþágur frá innleiðingu á tilteknum tilskipunum og reglugerðum?

„Stutta svarið er nei,“ segir Unnur. „Í fyrsta lagi er nánast útilokað að fá undanþágur, það er einfaldlega ekki til umræðu, og í öðru lagi hef ég skynjað í samtölum mínum við stjórnendur fjármálafyrirtækja að þeir vilji að það sé sýnilegt að á Íslandi gildi sömu reglur og í öðrum Evrópulöndum. Það skiptir máli fyrir samkeppnisstöðu, orðspor og fjármögnunartækifæri bankanna erlendis að hér sé allt gert eftir bókinni.“

Eftirlitið hefur góða sýn yfir fjármálakerfið

Starfsbræður Unnar sögðu í samtali við Financial Times að evrópska fjármálaregluverkið væri orðið svo flókið og þungt í framfylgd að það gæti byrgt eftirlitsstofnunum sýn á raunverulega áhættu byggjast upp í bankakerfinu.

Morten Baltzersen, forstjóri norska fjármálaeftirlitsins, sagði hættu á því að eftirlitsstofnunin „sæi ekki skóginn fyrir trjánum“ vegna þess að hún þyrfti að hafa umsjón með og framfylgja svo viðamiklu regluverki.

Jesper Berg, forstjóri danska fjármálaeftirlitsins, tók í sama streng: „Þetta er of mikið og það er hætta á því að maður týnist í smáatriðunum frekar en að hugsa um hverjar raunverulegu áhætturnar eru.“

Ísland er örmarkaður og við þekkjum fyrirtækin á fjármálamarkaðnum ansi vel.

Unnur segist hins vegar ekki hafa áhyggjur af því að Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands yfirsjáist veigamiklar áhættur í fjármálakerfinu. „Ísland er örmarkaður og við þekkjum fyrirtækin á fjármálamarkaðnum ansi vel. Það skiptir miklu máli að starfsfólkið okkar er vel þjálfað og reynt í að greina og meta áhættu í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Það hefur verið miklu meiri starfsmannavelta í eftirlitum nágrannalandanna en hér á síðustu árum.“

Þá tekur hún fram að regluverkið sé ekki of flókið á öllum sviðum fjármálakerfisins. „Þetta getur verkað í báðar áttir. Segja má að regluverk fyrir banka, vátryggingastarfsemi og verðbréfamarkaðinn sé orðið of fyrirferðarmikið en ef við tökum lífeyriskerfið fyrir má hins vegar segja að regluverkið sé of einfalt, enda er löggjöfin í kringum lífeyriskerfið séríslensk. Við teljum að gera þurfi meiri kröfur til og setja strangari varúðarreglur um lífeyrissjóði.“

Ummælin ríma við það sem hefur áður komið fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Gunnars Jakobssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í lok árs 2020 sagði Gunnar að ekki væri ekki heppilegt að lífeyrissjóðir breyttust í lánastofnanir án þess að hafa réttu umgjörðina eins og áhættustýringu innanhúss og þekkingu á því hvernig ætti að vinna úr lánum illa færi. Óheppilegt væri ef lífeyrissjóðir færu í bankastarfsemi án þess að vera undir sömu kröfu og bankar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×