Innherji

Evrópugerðir gera eftirlitinu kleift að sekta einstaklinga um 800 milljónir

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Áhrif af samþykkt frumvarpsins eru sögð minni en umfang þess gefur til kynna.
Áhrif af samþykkt frumvarpsins eru sögð minni en umfang þess gefur til kynna. Seðlabanki Íslands

Innleiðing á Evrópugerðunum CRR og CRD gefur fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands víðtækari heimildir til að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Eftirlitsstofnunin fær meðal annars heimild til að leggja 800 milljóna króna stjórnvaldssekt á einstaklinga sem brjóta gegn lögunum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt drög að lagafrumvarpinu en með innleiðingu laganna fær fjármálaeftirlitið heimild til að afturkalla starfsheimild fjármálafyrirtækis sem brýtur alvarlega eða ítrekað gegn peningaþvættisreglum og einnig til að krefjast sölu á virkum eignarhlut í lánastofnun fari eigandi hans þannig með hlutinn að það sé líklegt til að skaða heilbrigðan og traustan rekstur stofnunarinnar.

Þá hefur eftirlitið heimild til að víkja framkvæmdastjóra og stjórnarmanni stjórnarmanni í fjármálafyrirtæki frá uppfylli hann ekki hæfisskilyrði og einnig til að leggja stjórnvaldssekt á þann sem hefur staðið að því að fyrirtæki fái starfsleyfi á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt. Samkvæmt lagafrumvarpinu geta stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga numið allt að 800 milljónum króna en hámarkið var áður 65 milljónir.

Auk þess er kveðið nánar á um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja, þar á meðal skyldu kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja til að starfrækja tilnefningarnefnd og starfskjaranefnd.

Þá fjalla lögin um sjónarmiðin sem liggja að baki ákvörðunum um hlutfall sveiflujöfnunarauka. Við mat á sveiflujöfnunarauka skal litið til skuldasveiflu, einkum fráviks hlutfalls skulda af vergri landsframleiðslu frá langtímaleitni, áhættu sem stafar af óhóflegum vexti skulda á Íslandi og annarra viðeigandi þátta.

Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands.Seðlabanki Íslands

Samþykkt frumvarpsins getur orðið til þess að fjármálafyrirtæki viðhaldi meira eigin fé, einkum vegna heimildar Fjármálaeftirlitsins til þess að tilkynna fjármálafyrirtækjum um eiginfjárálag sem það telur æskilegt að þau hafi umfram það sem þeim ber skylda til samkvæmt lögum og kröfum eftirlitsins.

„Þótt þau tilmæli séu ekki bindandi eru taldar líkur á því að fjármálafyrirtæki muni oftar en ekki kjósa að hlíta þeim,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Almennt hámark sveiflujöfnunarauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á landsvísu hækkar úr 2 prósentum í 3 prósent. Samanlagt hlutfall þess eiginfjárauka og kerfisáhættuauka má þó ekki verða hærra en 5 prósent, nema með samþykki fastanefndar EFTA-ríkjanna.

Sveiflujöfnunarauki á landsvísu er nú 2 prósent og kerfisáhættuauki 3 prósent og samanlagt hlutfall þeirra er því 5 prósent. Ekki verður því unnt að hækka eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á landsvísu eftir samþykkt laganna nema að kerfisáhættuauki sem gildir um þau sé lækkaður á móti, án samþykkis fastanefndar EFTA-ríkjanna.

„Áhrif af samþykkt frumvarpsins eru talin minni en umfang þess gefur til kynna því þær efnisreglur sem mest áhrif hafa á Íslandi, svo sem um eigið fé og laust fé, hafa þegar verið teknar upp í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli hér á landi, þótt ýmis veigaminni atriði standi út af,“ segir jafnframt í greinargerð með frumvarpinu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.