Viðskipti innlent

Jómfrúin óskar líka eftir undanþágu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jakob E. Jakobsson óskaði eftir svörum fyrir klukkan 14 í dag.
Jakob E. Jakobsson óskaði eftir svörum fyrir klukkan 14 í dag. Vísir/Vilhelm

Rekstraraðilar Jómfrúarinnar í Lækjargötu hafa óskað eftir undanþágu frá takmörkunum á samkomum vegna Þorláksmessu. Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar, segir beiðni veitingastaðarins fullkomlega sambærilega þeim undanþágum sem hafi verið veittar.

Dæmi eru um að tónleikahaldarar hafi fengið undanþágu frá samkomutakmörkunum á Þorláksmessu. Bubbi Morthens fékk leyfi fyrir tónleikum í Hörpu og Emmsjé Gauti fyrir þrennum tónleikum í Háskólabíó. Var vísað til þess að tónleikahaldarar hefðu ekki haft rými til að bregðast við breytingunum með svo stuttum fyrirvara.

Jakob ávarpar viðskiptavini Jómfrúarinnar á Facebook, fastagesti á Þorláksmessu.

„Ég fæ að ávarpa ykkur hér þar sem við, sökum anna, höfum ekki tækifæri á að vera í beinu sambandi. Vegna morgundagsins og yfirvofandi þyngdra takmarkanna, sem koma sér afar illa fyrir okkar fallega dag, þá hefur Jómfrúin óskað eftir undanþágu frá takmörkunum á samkomum vegna morgundagsins 23. desember til Heilbrigðisráðuneytis,“ segir Jakob.

„Að mati okkar er beiðni sú fullkomlega sambærileg þeim undanþágum sem þegar hafa verið veittar og við því vongóð um jákvæð svör.“

Óskað hafi verið eftir því að ráðuneytið afgreiddi málið fyrir klukkan tvö í dag til að hægt sé að gera ráðstafanir í samræmi við niðurstöðuna.

„Við vitum því meira seinnipartinn,“ segir Jakob.

200 skötuskammtar á leið í ruslið

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, sendu í morgun bréf á heilbrigðisráðherra þar sem óskað er eftir undanþágu frá hertum sóttvarnareglum fyrir hönd 130 veitingahúsa víðs vegar af landinu.

Blik Bistro & Grill í Mosfellsbæ hefur sóst eftir undanþágu á Þorláksmessu í skötuveisluna. 

„Um 500 manns voru skráðir yfir daginn og vegna hertra sóttvarnaraðgerða hefur þessi fjöldi fallið í 300 manns. Við munum að sjálfsögðu fylgja öllum sóttvörnum í 20 manns í hólfi en vildum svo sannarlega halda því í 50 fram að jólum. Við höfum pantað inn hráefni fyrir 500 manns og er við því búist að 200 skammtar lendi í ruslinu með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ólafur Björn Guðmundsson eigandi Blik Bistro & Grill.


Tengdar fréttir

Bubbi fær undan­þágu á Þor­láks­messu: „Ég trúi á jóla­sveininn“

Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens fara fram með óbreyttu sniði í Hörpu á fimmtudag þrátt fyrir tilkomu hertra samkomutakmarkanna. Hefur fengist undanþága frá reglunum á grundvelli þess að tónleikahaldarar hafi ekki haft rými til að bregðast við breytingunum með svo stuttum fyrirvara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×