Innherji

Forstjóri PLAY: „Við höfum séð að það er bara verðið sem skiptir máli“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Birgir segir mikilvægt að PLAy sé vel fjármagnað svo að hægt verði að vinna að langtímaáformum þrátt fyrir sveiflur. 
Birgir segir mikilvægt að PLAy sé vel fjármagnað svo að hægt verði að vinna að langtímaáformum þrátt fyrir sveiflur.  Mynd/PLAY

Bandaríkjaflug PLAY, sem hefst í vor, gjörbreytir viðskiptalíkani íslenska flugfélagsins og leiðir til þess að umsvifin aukast gríðarlega. Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, segir félagið í góðu færi til að sækja markaðshlutdeild á tengimarkaðinum yfir Norður-Atlantshafið með lágum verðum. Verðið sé það sem skipti mestu máli þegar upp er staðið.

Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á flugi til Boston og Washington, D.C. í Bandaríkjunum. Fyrsta flugið til Washington verður 20. apríl á næsta ári og 11. maí til Boston. Með tilkomu Boston og Washington mun PLAY fljúga til 24 áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu á næsta ári

„Eins og staðan er í dag erum við viðkvæm fyrir sveiflum á íslenska markaðinum en þegar miðasalan til Bandaríkjanna hefst fáum við nýja uppsprettu tekna. Þetta er algjör eðlisbreyting á félaginu og umsvifin aukast gríðarlega. Við erum núna að ráða 150 starfsmenn og erum nú þegar byrjuð á viðtölum við 5000 manns sem sóttu um,“ segir Birgir í samtali við Innherja.

PLAY mun fljúga til Logan flugvallar í Boston og Baltimore/Washington International flugvallar á milli Baltimore og Washington, D.C. Í vor verður því hægt að fljúga með tengiflugi á milli áfangastaða í Bandaríkjunum, og Parísar, Berlínar, London, Kaupmannahafnar, Dublin, Brussel, Stafangurs, Þrándheims og Gautaborgar í Evrópu.

„Þetta er ekki eins að bæta við tveimur áfangastöðum í Evrópu. Það er risastórt verkefni sem felur í sér alls konar leyfisveitingar og þjálfun, og krefst stafrænna innviða sem við þurftum að þróa. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum vel fjármögnuð til að geta unnið að langtímaáformum þrátt fyrir sveiflur,“ segir Birgir.

Flugfloti PLAY mun stækka úr þremur vélum upp í sex vélar í vor til að sinna Bandaríkjafluginu.Mynd/PLAY

PLAY setti nýja bókunarvél í loftið í gær en hún var hönnuð af ungversku fyrirtæki sem hefur komið að þróun stafrænna lausna hjá alþjóðlega flugrisanum Wizz air.

„Verðstýringin flækist umtalsvert þegar við þurfum að setja eitt verð á tvo flugleggi. Það mjög mikil kúnst en við vörðum tíma og fjármagni í að fjárfesta í kerfum og gögnum svo að hægt væri að hámarka þessar tekjur,“ segir Birgir.

Flugfloti PLAY mun stækka úr þremur vélum og upp í sex vélar í vor til að sinna Bandaríkjafluginu en um er að ræða nýjar Airbus A320neo og A321neo.

„Síðan stækkar flotinn upp í 10 vélar vorið 2023 þegar við fjölgum áfangastöðum í Bandaríkjunum og kynnum nýja staði í Kanada. Við höfum tryggt okkur allar þessar tíu vélar. Þær eru greiddar og koma glænýjar frá Airbus. Planið er síðan að vera með 15 vélar árið 2025 og við erum viðræðum til að tryggja okkur þessar fimm sem vantar upp á,“ segir Birgir.

Á tengimarkaðinum yfir Norður-Atlantshafið er gríðarleg samkeppni en Birgir segir að umfang markaðarins sé á bilinu 90 til 100 milljónir flugsæta.

„En við höfum séð að það er bara verðið sem skiptir máli og við höfum stillt kostnaðinum þannig upp að okkur líður bara vel með tiltölulega lág verð,“ bætir hann við.

„Okkar nálgun gengur út á það að láta leyfa gögnum að stýra okkur,“ bætir hann við. „Við ætlum okkur ekki endilega stóra hluti á þessum stærstu flugleggjum, til dæmis frá Boston til London. Við erum með staði í Skandinavíu eins og Gautaborg og Stafangur, vegna þess að við höfum séð að fólk er að leita að flugum þarna á milli,“ segir Birgir.

Innan raða PLAY eru fjölmargir starfsmenn, Birgir þar á meðal, sem störfuðu áður hjá WOW air. Aðspurður segir Birgir að draga megi lærdóm af Bandaríkjaflugi fallna flugfélagsins.

„Þegar WOW air hóf flug til austurstandar Bandríkjanna skilaði félagið hagnaði í tvö ár. Það var ekki fyrr en WOW keypti breiðþotur og byrjaði að fljúga til vesturstrandar Bandaríkjanna að síga fór á ógæfuhliðina. 

„Við ætlum að einbeita okkur að því sem við vitum að virkar.“

PLAY flutti 16.689 farþega í nóvember og sætanýting var 58,3 próesnt, samanborið við 67,7 prósent í október. Nóvember var þannig annar besti mánuður PLAY í sætanýtingu frá upphafi rekstrar en hún var einungis hærri í október.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.