Innherji

Lítið svigrúm fyrir verðhækkanir ef Play ætlar að ná viðunandi nýtingarhlutfalli

Hörður Ægisson skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Play, en ólíklegt er að upphafleg spá félagsins um 143 þúsund farþega í ár gangi eftir.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, en ólíklegt er að upphafleg spá félagsins um 143 þúsund farþega í ár gangi eftir. Vísir/Vilhelm

Miðað við upphaflegar áætlanir Play virðast flugfargjöld ætla að vera lítillega lægri og nýtingarhlutfall flugsæta lægra. Þannig var meðalverð flugfargjalda um 111 Bandaríkjadalir á þriðja ársfjórðungi þegar verð flugsæta er hvað hæst en flugfélagið hafði stefnt á heldur hærra verð í áætlunum sínum þegar félagið fór af stað í sumar.

Þetta kemur fram í nýju verðmati greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital á Play, sem var gefið út í fyrradag, en þar segir að tekjuáætlun flugfélagsins til lengri tíma hafi verið lækkuð örlítið vegna forsenda um lægri tekjur á hvert flugsæti. 

Tekjur á þessu ári áttu að vera yfir 25 milljónir dala og fjöldi farþega um 143 þúsund talsins.

„Skilaboð markaðarins virðast vera skýr. Það er lítið svigrúm fyrir verðskrárhækkanir ef Play ætlar að ná viðunandi nýtingarhlutfalli,“ segir greinandi Jakobsson.

Nýtingarhlutfall flugsæta var 67,7 prósent í október eftir að hafa verið undir 50 prósent fyrstu vikurnar. Frá því að Play hóf rekstur hefur nýtingarhlutfallið verið 52,3 prósent. „Október tölur gefa því tilefni til bjartsýni. Forsvarsmönnum virðist ganga ágætlega að halda kostnaði niðri og forðast óþarfa yfirbyggingu,“ segir í verðmatinu.

Tekjur Play námu 6,7 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi, rekstrarkostnaður nam 12,3 milljónum dala og var því EBITDA neikvætt um 5,6 milljónir dali. Rekstrartap nam 9,1 milljónum dala og EBIT hlutfall því neikvætt um 73 prósent.

Gert er ráð fyrir því að rekstarhagnaðarhlutfall Play verði komið í um níu prósent í lok spátímans árið 2024. Þótt vísbendingar séu enn óljósar segir greinandi Jakobsson Capital það koma á óvart hvað kostnaðarhlutföll félagsins hafi verið hægstæð á síðasta ársfjórðungi miðað við lága nýtingu flugsæta.

Lággjaldaflugfélagið Play hyggst opna útibú í Vilníus í Litháen í næsta mánuði.Vísir/Vilhelm

Í lok október voru farþegar orðnir 67,6 þúsund og var því kröftugur vöxtur í farþegafjölda þótt október sé oftast lakari en september. Þótt að desember sé góður mánuður í flugi telur greinandi Jakobsson ólíklegt að Play nái upphaflegri áætlun sinni um 143 þúsund farþega í ár. Í áætlun er gert ráð fyrir að tekjur Play nemi 16,6 milljónum dala árið 2021 og hækkar tekjuspá um 2 milljónir dala.

Þá segir í verðmatinu að stjórnendum Play sé greinilega umhugað um að „ofhlaða ekki vélina í flugtaki“ og vísar þá til þess að Play hyggist ætla að opna strax útibú í Litháen með ákveðnum sérfræðistörfum og mögulegu þjónustuveri. 

Play ætli þannig að „taka frekar frumkvæðið en að bíða eftir betri nýtingu og sömuleiðis draga úr neikvæðum áhrifum ofþenslu í ferðamannaiðnaðinum.“ Þannig sé ljóst að um leið og við munum sjá mikla fjölgun ferðamanna sé hætta á ofrisi krónunnar sem leiði til yfirspennts vinnumarkaðar og ósjálfbærs launaskriðs.

Nýtt verðmat Jakobsson Capital á Play er 25,6 krónur á hlut, sem er lítillega hækkun frá fyrra verðmati, sem gefur því markaðsvirði upp á tæplega 18 milljarða króna. Hlutabréfaverð flugfélagsins stóð hins vegar í 24 krónum á hlut við lokun markaða í gær eftir að hafa lækkað um liðlega 3,6 prósent í viðskiptum dagsins vegna ótta fjárfesta af nýju afbrigði kórónuveirunnar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Play opnar úti­bú í Litháen

Lággjaldaflugfélagið Play mun opna útibú í Vilníus í Litháen í næsta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu tengt ársfjórðungsuppgjöri, en þar var jafnframt sagt frá því að sætanýting félagsins hafi aukist um 30% milli mánaða og var 67,7% í október.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.