Viðskipti innlent

Spá mikilli fjölgun í fjár­mála­geiranum og mikilli fækkun bænda og sjó­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Spáin gerir ráð fyrir 99 prósent fjölgun þeirra sem starfa í fjármála- og vátryggingastarfsemi fram til ársins 2035. Myndin er af Borgartúni.
Spáin gerir ráð fyrir 99 prósent fjölgun þeirra sem starfa í fjármála- og vátryggingastarfsemi fram til ársins 2035. Myndin er af Borgartúni. Vísir/Vilhelm

Ný spá Hagstofunnar gerir ráð að starfsfólki muni fjölga mest innan fjármála- og vátryggingastarfsemi hér á landi fram til ársins 2035. Á sama tíma muni starfsfólki í landbúnaði og í fiskveiðum fækka verulega.

Frá þessu segir á vef Hagstofunnar þar sem tilraun er gerð til að spá fyrir um fjölda einstaklinga innan hvers menntunarsviðs, menntunarstigs og atvinnugreinabálks auk áætluðum fjölda auglýstra starfa innan hvers atvinnubálks fram til ársins 2035.

Á tímabilinu 2017 til 2035 er gert ráð fyrir að fólk á aldrinum 16 til 74 fjölgi um rúmlega 36 þúsund manns, eða um 19 prósent. Spáin gerir ráð fyrir 99 prósent fjölgun þeirra sem starfa í fjármála- og vátryggingastarfsemi fram til ársins 2035 og 53 prósenta fjölgun hjá þeim sem starfa í „ýmissri sérhæfðri þjónustu“.

Hagstofan

Þá er reiknað með að mesti samdrátturinn verði á meðal þeirra sem starfa í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum, eða um 61 prósent.

Hagstofan segir mikilvægt að árétta að við útreikninga á fjölda starfandi eftir atvinnugreinabálkum sé tekið mið af áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar á atvinnugreinar samkvæmt skýrslu forsætisráðuneytisins frá árinu 2019 en þar sé gert ráð fyrir auknum samdrætti vegna sjálfvirknivæðingar í ákveðnum atvinnugreinum.

„Á spátímabilinu er gert ráð fyrir að eftirspurn í formi lausra starfa muni dragast saman í öllum atvinnugreinum nema auglýstum störfum sem falla undir ýmsa sérhæfða þjónustu (ÍSAT2008 flokkar M-N) en fjöldi auglýstra starfa sem falla undir þann bálk mun nánast haldast óbreyttur til ársins 2035.

Menntunarstaða á Íslandi hefur hækkað á síðustu misserum. Áætlað er að þessi þróun haldi áfram út spátímabilið eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Samanborið við árið 2017 er gert ráð fyrir að hlutfall fólks með háskólamenntun á aldrinum 16-74 ára aukist úr 30% í 44% (48.000 einstaklingar) árið 2035. Einnig er búist við að hlutfall fólks eingöngu með grunnmenntun lækki um 12% (24.600 einstaklingar) á sama tímabili. Leiða má líkur að því að þetta sé m.a. vegna þess að æ fleiri atvinnurekendur krefjast að minnsta kosti framhaldsskólamenntunar og vegna þess að sífellt fleiri einstaklingar með framhaldsmenntun koma í stað þeirra sem eru með grunnmenntun sem hæstu menntun og fara á eftirlaun,“ segir á vef Hagstofunnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×