Handbolti

Guðmundur landsliðsþjálfari: Ég hef bullandi trú

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni hjá íslenska handboltalandsliðinu á HM í janúar síðastliðnum.
Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni hjá íslenska handboltalandsliðinu á HM í janúar síðastliðnum. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, mætti í Seinni bylgjuna og ræddi framhaldið hjá strákunum okkar en íslenska landsliðið er á leiðinn á Evrópumeistaramótið eftir áramót.

Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, spurði Guðmund út í hið fræga þriggja ára plan hans og möguleikann á að fylgja því og að landsliðið verði komið í hóp átta bestu þjóðanna á næsta móti.

„Þetta er alltaf þannig þegar maður er landsliðsþjálfari þá bíður maður í ofvæni eftir því að fá liðið í hendurnar. Ég vona þá að ég fái þá heila svo að þetta endi ekki þannig að við séum með tvo, þrjá, fjóra lykilmenn meidda eins og reyndin var á HM í fyrra,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.

„Þá breytist myndin og sérstaklega hjá íslenska landsliðinu því þar breytist hún mjög fljótt. Þess vegna er maður ekki of mikið að tjá sig um þetta en það er alveg rétt. Ég byrjaði á uppbyggingu 2018 og fór mjög markvisst í það að fara í kynslóðaskipti,“ sagði Guðmundur.

Klippa: Seinni bylgjan: Guðmundur landsliðsþjálfari um þriggja ára planið sitt

„Við erum komnir núna í aðra stöðu en við erum vanir. Leikmenn voru að spila í Olís deildinni og ég veit hve margra ég var með í hópnum sem voru ennþá að spila hér á Íslandi. Þeir eru komnir í góð lið í Evrópu og það hefur mjög margt gerst á þessum tíma,“ sagði Guðmundur.

Íslenska landsliðið er í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Hollandi og í millriðlinum bíða væntanlega Króatía, Frakkland, Danmörk og Slóvenía komist íslenska liðið þangað.

„Nú er bara spurningin hvort við séum komnir nægilega langt til þess að taka næsta skref. Það yrði frábær árangur að komast á topp tíu á EM. Þetta er mjög erfitt mót og til þess að ná því þá þurfum við í fyrsta lagi að komast upp úr riðlinum að sjálfsögðu sem við höfum náð á síðustu þremur stórmótum. Við þurfum þá líka að ná að vinna lið í milliriðlinum,“ sagði Guðmundur.

„Þar eru andstæðingarnir ógnarsterkir en það er allt mögulegt í þessu. Ég hef bullandi trú á þessum hóp og ég var mjög ánægður með æfingavikuna nú í nóvember. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því og maður þarf að átta sig á því að ég er ekki kominn með hópinn í hendurnar og ég veit ekki hvernig hann mun á endanum líta út. Sleppum við við meiðsli og verða lykilmenn okkar með,“ sagði Guðmundur eins og sjá má hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×